Naumt tap Stólastúlkna í spennuleik

Kvennalið Tindastóls í körfunni spilaði fyrsta leik sinn á nýju ári í gærkvöldi en þá heimsóttu þær lið Aþenu/Leiknis/UMFK í Austurberg. Kanaskipti hafa orðið hjá Stólastúlkum en Jayla Johnson spilaði í gær sinn fyrsta leik en hún er allt öðruvísi leikmaður en Chloe Wanink sem var með liðinu fyrir áramót. Leikurinn í gær var jafn og spennandi en það voru heimstúlkur sem reyndust sterkari í fjórða leikhluta og unnu þriggja stiga sigur. Lokatölur 73-70.

Jayla og Emese fóru mikinn í upphafi leiks og gerðu 15 fyrstu stig Tindastóls sem sýndi fínan leik í fyrsta leikhluta og leiddu 16-23 að honum loknum. Heimastúlkur hertu á vörn sinni í öðrum leikhluta og minnkuðu muninn smám saman. Staðan var 28-30 eftir fimm mínútur og báðum liðum gekk illa að koma boltanum í körfurnar fram að hléi en þá höfðu heimstúlkur náð að jafna, staðan 34-34.

Þriðji leikhluti var hnífjafn en Stólastúlkur áttu góðan kafla upp úr miðjum leikhluta og náðu átta stiga forystu, 42-50, en lið Aþenu var rétt rúma hálfa mínútu að jafna leikinn og komust yfir, 52-50. Fimm stig frá Jaylu sáu til þess að lið Tindastóls var stigi yfir, 54-55, fyrir lokafjórðunginn. Þá sigu heimastúlkur fram úr og voru sjö stigum yfir þegar tæpar fimm mínútur voru eftir, 68-61. Þær voru enn sjö stigum yfir, 72-65, þegar ein og hálf mínúta var eftir en Stólastúlkur náðu að minnka muninn í þrjú stig, 72-69, þegar 13 sekúndur voru eftir með körfum frá Emese og Evu Rún. Nær komust gestirnir ekki og tap staðreynd.

Jayla var stigahæst leikmanna Tindastóls með 31 stig og sjö fráköst, Emese var með 19 stig og 20 fráköst og Eva Rún var með 15 stig, níu fráköst og fimm stoðsendingar.

Fyrirliðinn bjartsýnn á framhaldið

Eva Rún Dagsdóttir, fyrirliði Tindastóls, segir að Jayla Johnson komi með mikinn styrk og orku inn í liðið en Feykir spurði hana hvað hún kæmi með inn í liðið. „Hún er frábær persónuleiki og við náum allar mjög vel saman. Hvað breytist með tilkomu hennar? Ég held að hún sé akkurat það sem vantaði í liðið. Hún spilar 3-4 og kemur með mikinn kraft. Hún getur skotið, klárað í kringum körfuna, búið sér til færi og spilað góða vörn. Það sem breytist með tilkomu hennar er einmitt það að hún hefur þetta allt saman. En það vantaði meira frá Chloe.

Hvað fannst þér um leikinn í gær? Við áttum auðvitað að vinna þennan leik og það er vel pirrandi að tapa með þremur stigum. En fyrir utan það fannst mér þetta geggjaður leikur að flestu leiti. Allt liðið var að koma saman í fyrsta skipti eftir fjarveru, Emese kom t.d. beint í leikinn frá Serbíu, og fleiri sem höfðu ekki komist á æfingar fyrir leik, Jayla nýkomin. Miðað við það spiluðum við drulluvel saman. Mér fannst vera góð orka, góður liðsandi, góð barátta, góð samvinna og vilji fyrir sigri. Við vorum ellefu í hóp og allar fengu sínar mínútur. Þó að við töpuðum leiknum er þetta smá sigur í leiðinni af því að ég veit að eftir góðar æfingar eigum við eftir að vinna næstu leiki með þessu liði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir