Myrkur í gamla bænum á Sauðárkróki - Uppfært

Það var myrkur í gamla bænum á Sauðárkróki í morgunsárið líkt og marga morgnana á undan en verið er að uppfæra kerfi sem stýrir götulýsingu. Mynd: PF
Það var myrkur í gamla bænum á Sauðárkróki í morgunsárið líkt og marga morgnana á undan en verið er að uppfæra kerfi sem stýrir götulýsingu. Mynd: PF

Um nokkurt skeið hefur myrkrið verið alls ráðandi í gamla bænum á Sauðárkróki þegar skyggja tekur þar sem engin götulýsing er fyrir. Ástæðan er sú að verið er að vinna að uppfærslu á kerfi sem stýrir ljósastaurum í gamla bænum.

Kannski má segja að þetta hafi bæði kosti og galla þar sem ókostirnir eru augljóslega minna skyggni í rökkrinu sem aftur þýðir minni ljósmengun og sjást stjörnur himinsins því mun betur og norðurljósin sem reglulega hafa dansað um himinhvolfin.

Samt sem áður biðst sveitarfélagið velvirðingar á þessum truflunum á heimasíðu sinni en unnið er að því að hraða verkinu eftir bestu getu.

Uppfært
Í ljós hefur komið bilun í hitaveituæð í gamla bænum á Sauðárkróki sem hefur áhrif á rafmagnslögn fyrir ljósastaura og segir á heimasíðu sveitarfélagsins að lögnin sé í sundur. Af þeim sökum þarf að draga nýjan streng í lögnina en ekki er unnt að gera það fyrr en viðgerð á hitaveituæðinni er lokið. Áætlað er að viðgerðum ljúki á föstudaginn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir