Mottumars hefst í dag
Mottumars, árlegt árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins tileinkað baráttunni gegn krabbameinum hjá körlum, hefst í dag 1. mars. „Í Mottumars tökum við höndum saman í vitundarvakningu um krabbamein hjá körlum og öflum fjár fyrir mikilvægri starfsemi Krabbameinsfélagsins. Í ár minnum við karlmenn sérstaklega á að kynna sér hvaða einkenni geta bent til krabbameins og hvetjum þá til að leita fljótt til læknis verði þeir varir við þau einkenni,“ segir í tilkynningu frá félaginu.
Krabbameinsfélagið hefur að markmiði að fækka þeim sem greinast með krabbamein, lækka dánartíðni þeirra sem greinast og bæta lífsgæði þeirra sem greinast með krabbamein og fjölskyldna þeirra. Starfsemi félagsins byggir alfarið á styrkjum einstaklinga og fyrirtækja og með kaupum á Mottumarssokkum tekur fólk þátt í að fjármagna krabbameinsrannsóknir, ráðgjöf og stuðning, fræðslu og forvarnir.
„Upp með sokkana – þú ert eldri en þú heldur!“ en það er slagorð Mottumars í ár. „Okkur finnst nefnilega mörgum, og undir það geta örugglega margir karlar tekið, að við séum enn svo ung að við þurfum ekki að velta sjúkdómum fyrir okkur. Allir ættu þó að þekkja einkenni sem geta bent til krabbameins til að geta brugðist snemma við. Sérstaklega ættu karlmenn í kringum fimmtugt og eldri að vera vakandi fyrir einkennum og bregðast við ef þeirra verður vart. Líkurnar á að greinast með krabbamein aukast nefnilega eftir því sem aldurinn hækkar. Að sama skapi batna batahorfur því fyrr sem krabbamein greinist,“ segir í tilkynningunni.
Nánari upplýsingar eru á mottumars.is en þar er hægt að panta sokka en einnig hægt að skrá sig í hina frægu Mottukeppni sem verður á sínum stað. Vertu með og safnaðu!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.