Mögulegt að flýta framkvæmdum við Vatnsnesveg, segir Unnur Valborg, sveitarstjóri
Feykir hafði samband við Unni Valborgu Hilmarsdóttur, sveitastjóra Húnaþings vestra og spurði hvernig henni litist á þá nálgun Haraldar Benediktssonar, alþingismanns, sem hann sagði frá á Hvammstanga í upphafi mánaðar. Þar kynnti Haraldur tillögu um flýtingu framkvæmda vegagerðar um Vatnsnes. Hefur þessi hugmynd vakið mikla athygli en hann sagði hana hvorki frumlega né óumdeilanlega en ætlunin væri að flytja sérstakt þingmannafrumvarp til að hún fái framgang í stjórnkerfinu.
„Við fögnum öllum hugmyndum og allri umræðu um hvernig má flýta nauðsynlegum samgöngubótum í sveitarfélaginu. Nálgun Haraldar er ný hugsun í samgöngumálum sem er allrar athygli verð og mikilvægt að hún verði skoðuð ofan í kjölinn,“ segir Unnur.
En hvaða tækifæri skyldi hún sjá varðandi Vatnsnesveg með þessari nálgun og hvaða vankantar ætli séu fyrirliggjandi?
Eftir vel heppnaðan fund á Hvammstanga í upphafi mánaðar. F.v. Þorleifur Karl Eggertsson oddviti Húnaþings vestra, Haraldur Benediktsson alþingismaður, Magnús Magnússon formaður byggðarráðs Húnaþings vestra, Gísli Gíslason fv. stjórnarformaður Spalar og Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri Húnaþings vestra. Aðsend mynd.
„Miðað við þær hugmyndir sem kynntar hafa verið þá væri með þessari leið mögulegt að flýta framkvæmdum við Vatnsnesveg. Það var ákveðinn áfangasigur þegar vegurinn komst inn á samgönguáætlun en því miður ekki fyrr en á síðasta tímabili áætlunarinnar eða eftir meira en áratug. Auk þess sem verkefni á seinni tímabilum áætlunarinnar eru ekki fjármögnuð svo það er engin trygging fyrir því að þau komi til framkvæmdar á þeim tíma. Þessi leið Haraldar kallar á lagabreytingar sem getur verið áskorun en er ekki ókleifur hamar.
Hún kallar líka á auknar álögur á íbúa á formi veggjalda. Auðvitað fagnar enginn aukinni gjaldtöku en það má ekki gleyma því að íbúar á Vatnsnesinu búa í dag við gjaldtöku á formi slita á bílum, lækkuðu endursöluverði auk þess sem að útilokað er fyrir íbúa að fara um veginn á rafmagnsbílum. Þeir einfaldlega þola ekki veginn. Því til viðbótar er vert að vekja athygli á því að ef þessar hugmyndir verða að veruleika þá verða það ferðamenn sem greiða stærsta hluta framkvæmdarinnar þar sem þeir eru obbinn af þeirri umferð sem um veginn fer auk þess sem stakar ferðir yrðu dýrari en áskriftarkort líkt og við þekkjum úr Hvalfjarðargöngunum á sínum tíma.“
Unnur segist vona að uppbygging Vatnsnesvegar hefjist fyrr en vegaáætlun segi til um og mun líkt og undanfarin ár verða eitt helsta baráttumál sveitarstjórnar. „Öll umræða eins og þessi sem nú er farin af stað er af hinu góða og undirstrikar mikilvægi þessarar framkvæmdar fyrir íbúa á Vatnsnesi en einnig fyrir ferðamenn sem aka veginn í sí auknu mæli,“ segir hún.
Vatnsnesvegur. MYND AF VEF HÚNAÞING VESTRA
Baráttan fyrir endurbótum á Vatnsnesvegi hefur staðið yfir í áratugi og bendir Unnur á að það hafi unnist áfangasigrar en miðað við núverandi framkvæmdahraða verður vegurinn ekki kominn í viðunandi ástand fyrr en eftir mannsaldur. Það segir hún ekki ásættanlegt. „Við verðum að horfa á verkefnið í víðu samhengi. Um er að ræða búsetumál, til að auka byggðafestu á dreifbýlum svæðum verða samgöngur að vera í lagi. Um er að ræða loftslagsmál, orkuskipti í samgöngum á svæðinu verða ekki möguleg miðað við óbreytt ástand vegarins.
Ekki síst er um að ræða sparnað til langs tíma í viðhaldi á veginum sem mætti þá nota í betra viðhald á öðrum vegum í sveitarfélaginu sem einnig eru í slæmu ástandi. Það mikilvægasta af þessu öllu er hins vegar að endurbætur á Vatnsnesvegi eru öryggismál. Um veginn fer mikil umferð, skólabarna, íbúa sem sækja vinnu annarsstaðar í sveitarfélaginu auk bænda sem nýta veginn við sína vinnu og ferðamanna. Brýnt er að tryggja öryggi allra þessara hópa á ferðum sínum um veginn.“
Tengd frétt: Hvorki frumleg né óumdeilanleg hugmynd að nýrri hugsun, segir Haraldur Benediktsson um nýja nálgun í vegagerð
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.