Minningar horfins tíma - Með grjót í vösunum eftir Svein Torfa Þórólfsson
Sveinn Torfi vann í fiski, fór í sveit og stundaði sjómennsku frá barnsaldri en braust af eigin rammleik til mennta. Fyrst var hann á Laugarvatni en síðan í háskólum á Íslandi og í Noregi þar sem hann settist að og starfaði sem verkfræðingur og prófessor. Í bókinni segir Sveinn Torfi frá æskuárum sínum á Skagaströnd þar sem hugmyndaflugið fékk að njóta sín í fjölbreyttum leikjum og síðan ljúfri sveitadvöl á Höskuldsstöðum — en einnig harðneskjulegum unglingsárum.
Með grjót í vösunum geymir minningar um horfinn tíma og svipmyndir af eftirminnilegu fólki. Þetta er mikilsverð og bráðskemmtileg heimild um íslenskan veruleika um miðja síðustu öld, segir í bókarkynningu. Feykir fékk leyfi útgefanda til að birta kaflabrot út bókinni og við grípum niður í kaflanum Lög unga fólksins og þar er farið að styttast verulega til jóla.
Lög unga fólksins
[ ... ] Einu sinni fyrir jólin 1951 vildi mamma setja upp jólaskreytingar á veggina heima í Höfðaborg. Pabbi var ekki heima. Hann var á togaranum Höfðaborgu sem var á veiðum um jólin. Þá segir mamma allt í einu:
Þið Almar verðið að fara upp í Reykholt til hans Hafsteins og kaupa lím sem límir allt.
Ég mótmælti, sagði að það væri orðið áliðið og komið myrkur úti og langt upp í Reykholt, en mamma taldi að það lægi á að fá límið til að festa upp jólaskreytingarnar og fá jólastemningu í húsið.
Hvað, hefur enginn þetta lím í verslunum nær okkur? Er ekki hægt að fá þetta lím hjá Sigga Sölva eða í Kaupfélaginu? spurði ég, eða þá hjá Jóhönnu hans Adda bílstjóra sem er nýkomin með verslun, svo maður sleppi við að fara alla leið upp í Reykholt til Hafsteins?
En mamma sagðist hafa spurt þau og þau hefðu ekki lím sem límir allt.
Það var talsverð vegalengd frá okkur í Höfðaborg og upp í Reykholt. En við Almar lögðum af stað niður Kaupfélagstúnið í myrkri og hálfgerðu leiðindaveðri. Við hálfhlupum niður að sementsskúr, sem var gamla verslunarhúsið en síðan notað fyrir geymslu á sementi, kornvöru og fleiru. Þar var ljósastaur með einni peru. Peran var 60 vött, það vissum við strákarnir því við höfðum klifrað upp í ljósastaurinn og skoðað hana. Yfir henni var skermur úr járni svo ekki snjóaði á hana.
Við stóðum dágóða stund til að safna kjarki til að halda áfram inn með víkinni svo tókum við sprettinn inn eftir, framhjá Karlsskála, Læk og Lækjarbakka og stoppuðum ekki fyrr en við ljósastaurinn utan við Viðvík. Við vorum að vona að Gísli í Viðvík kæmi út og ræki okkur heim. En nei, enginn Gísli kom svo við héldum áfram. Við tókum alltaf mið á næsta ljósastaur en það var langt á milli þeirra. Þegar við fórum framhjá Bjargi heyrðist okkur að eitthvað væri að hreyfa sig niðri í fjöru neðan við Bjarg svo við hertum á göngunni, eða hálfhlupum. Fyrir utan Ásberg sáum við glitta í tvö augu og hrukkum við en áttuðum okkur á að þetta var köttur sem kúrði þarna í hlýjunni frá húsinu. Við sáum engan á ferli úti og enginn bíll kom svo allt var dimmt í kringum okkur nema stöku ljós í glugga og einu sinni kom hundur hljóðlaust utan úr myrkrinu og stakk köldu trýninu í fótlegginn á mér svo ég hrökk við.
Á leiðinni fórum við framhjá Útibúi Kaupfélagsins en þar var allt slökkt og dimmt. Þegar við nálguðumst kirkjuna sáum við að þar var ljós. Hvað var um að vera í kirkjunni svona seint á degi? En við fengum ekkert svar.
Loks komum við upp í Reykholt. Sem betur fór voru þar útiljós. Við bönkuðum og Laufey kom til dyra. Hún var greinilega að fást við mat með uppbrettar ermar og eitthvert deig á höndunum. Hún horfði hálfforviða á okkur og spurði:
Hvað viljið þið hér í myrkrinu?
Við bárum upp erindið og hún sagði: Ég næ í Hafstein.
Hún hvarf inn og eftir dágóða stund kom Hafsteinn.
Húsin undir Höfðanum. Séð yfir Kaupfélagstúnið.
Höfðaborg næst t.h. Mynd. Ljósm. Ska.
Svo þið viljið kaupa lím sem límir allt, segir Hafsteinn og opnar búðina með lykli. Hann gengur svo inn, kveikir ljósið og fer inn fyrir búðarborðið. Hér á það að vera, segir hann og þreifar upp í hillu. Hvað, hér er það ekki. Svo kíkir hann niður í skúffu og segir sigri hrósandi: Hér er það.
Svo réttir hann okkur límtúpu og segir: Tvær og fimmtíu.
Nú vandast málið. Við erum bara með túkall og setjum hann á borðið.
Jæja, það er þá svona, segir hann. Allir í peningakröggum.
Geturðu skrifað það? spyr ég.
Þið eruð ekki í reikningi hér og borgið sennilega aldrei. Jæja, þið getið fengið túpuna fyrir þetta, og fyrir að ganga alla leiðina hingað utan frá Höfða en þið verðið að segja mér fréttir.
Fréttir? spyr ég forviða.
Já, fréttir, það eru miklar fréttir frá svæðinu úti undir Höfða. Svo leggur hann handleggina fram á búðarborðið, tottar pípu sína og bíður eftir fréttum.
Við Almar vorum alveg ráðalausir yfir þessu verkefni. Við höfðum aldrei verið spurðir um fréttir fyrr. Á meðan við stóðum þarna hálfvandræðalegir í þögninni kemur Laufey inn með þjósti og spyr hvort drengirnir sem hafi gengið alla leið utan frá Höfða eigi ekki að fá sér eitthvað í svanginn áður en þeir fari úteftir aftur. Svo skipar hún okkur Almari að koma fram í eldhús og fá matarbita. Við urðum fegnir þessari óvæntu björgun og þustum fram í eldhús en skildum túkallinn eftir á búðarborðinu.
Ég man nú ekki hvað var borið á borð en Laufey fór að tala um að láta eina dótturina fylgja okkur heim og dóttirin fór að klæða sig í kápuna. Ég tók það ekki í mál, sagðist alveg fær um að koma okkur til baka og hugsaði: En sú skömm að láta stelpu fylgja okkur út eftir þó það sé myrkur. Við kvöddum með virktum og þökkuðum fyrir okkur og héldum út í myrkrið.
Ég man lítið frá ferðinni heim, nema við Karlsminni heyrðum við urr og ýlfur og hrukkum við og gripum hvor í annan en áttuðum okkur svo á að þetta var bara hundur að ýlfra.
Við komum heim í Höfðaborg undir miðnætti, mamma varð glöð að fá límið en rak okkur beint í rúmið. Við vorum nokkuð þreyttir, eiginlega úrvinda eftir ferðina og reynslu kvöldsins. Þegar við vöknuðum næsta morgun urðum við steinhissa því mamma var búin að hengja upp jólaskraut um allt, líka inni í herberginu þar sem við sváfum án þess að við vöknuðum. Og húsið fylltist jólastemningu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.