"Mínir leikmenn berjast um hvern einasta bolta"

Borce Ilievski frá Makedóníu, var á dögunum ráðinn yfirþjálfari körfuknattleiksdeildar Tindastóls til næstu þriggja ára. Þar mun Borce hafa umsjón með þjálfun meistaraflokks, unglingaflokks, auk eins yngri flokks til. Til viðbótar þessu mun hann veita Körfuboltaskóla Tindastóls forstöðu og hafa yfirumsjón með samþættingu þjálfunar yngri flokka og vera þjálfurum til aðstoðar og stuðnings.

Borce kemur til Tindastóls frá KFÍ á Ísafirði þar sem hann hefur þjálfað sl. fjögur ár. Samningur hans rann út í vor og ákváðu báðir aðilar að róa á önnur mið í framhaldinu.

En hver er hans bakgrunnur og hver er þessi maður eiginlega?

-Í upphafi langar mig til að kasta kveðju á stuðningsmenn Tindastóls og láta þá vita af því að ég er mjög spenntur fyrir því að koma á Krókinn og þjálfa. Ég hef verið körfuboltaþjálfari í 16 ár og á þeim tíma verið þjálfari hjá nokkrum félögum og auk þess var ég aðalþjálfari U-14 ára landsliðs Makedóníu og aðstoðarþjálfari U-16 ára. Ég þjálfaði háskólalandsliðið, hef þrisvar sinnum keppt til úrslita um meistaratitil með mínum liðum þar sem okkur tókst einu sinni að verða meistarar. Síðan 2006 hef ég verið á Íslandi og þjálfað hjá KFÍ á Ísafirði.

Borce er fjölskyldumaður og á eiginkonu Biljönu og tvær dætur þær Marinu og Söndru. Til að byrja með voru þær úti á meðan hann kom sér almennilega fyrir, en þær hafa nú búið með honum á Íslandi í tvö ár. Borce mun koma einn til að byrja með, en áætlað er að fjölskyldan sameinist á Sauðárkróki á næsta ári. Mun það helgast af atvinnumöguleikum Biljönu en hún er efnafræðingur að mennt og starfar í dag í þeim geira á Ísafirði.

En hvernig þjálfara telur þú þig vera? –Ég legg metnað minn í að búa til árangursríkt starf hverju sinni, ég kenni leikmönnum mínum nýjustu strauma og stefnur í evrópskum körfubolta, sérstaklega varnarlega. Ég legg einnig áherslu á að leikmenn mínir sýni af sér íþróttamennsku, liðsanda og sjálfsstjórn og legg ávallt áherslu á kennslu grunnatriðanna.

En hvernig kom það til að þú ákvaðst að koma til Tindastóls? –Mig langaði til að koma hingað af nokkrum ástæðum. Ein er sú að Tindastóll hefur langa hefð sem körfuboltafélag, er vel skipulagt félag og hefur marga mjög efnilega leikmenn. Einnig hafa samskipti mín við Karl Jónsson skipt máli, það má segja að hann eigi „sök“ á því að ég er á Íslandi yfirleitt og ég ber mikla virðingu fyrir honum. Þegar ég hætti að þjálfa KFÍ fékk ég mörg tilboð um þjálfun sem var mikill heiður fyrir mig, en ég ákvað að koma hingað í Skagafjörðinn þar sem ég hef fylgst með Tindastól í nokkuð langan tíma.

En hvað finnst þér um körfuboltastarfið innan Tindastóls? –Eins og ég sagði áðan þá er körfuboltastarfið hjá Tindastóli mjög áhugavert, ég sé marga mjög efnilega leikmenn og ég mun reyna í samvinnu við aðra þjálfara að byggja upp prógram sem getur orðið eitt það besta á landinu. Metnaður minn gagnvart meistaraflokknum er sá að komast á toppinn. Mitt fyrsta markmið er að byggja upp liðið með samblandi af ungum og reyndari leikmönnum, síðan þarf að koma þeim inn í mína hugmyndafræði og leikskipulag eins fljótt og hægt er. Síðasta markmiðið er síðan að koma liðinu í toppbaráttuna þar sem stefnan er sett á titla. Það verður erfitt, en vel mögulegt ef menn trúa því að þeir geti það og vinna hörðum höndum að því að ná því markmiði. Ég þekki leikmennina ágætlega en hef pínu áhyggjur af því að missa einhverja af reyndari leikmönnunum fyrir næsta tímabil. Hins vegar er ég mjög ánægður með þann efnivið sem finnst meðal yngri leikmannanna og við munum leggja í mikla vinnu við að gera þá betri og ná betri úrslitum í framtíðinni.

En hvað segir Borce um íslenskan körfubolta yfirleitt? Leikstílinn, dómara, leikmenn og hvað er það sem við þurfum að gera betur? –Mín skoðun er sú að hér sé amerískur leikur ríkjandi, „run and gun“ bolti, þar sem leikmenn geta skotið boltanum án þess að þurfa að sýna mikla ábyrgð í því. Það er mín skoðun að íslenskur körfubolti þurfi meira að horfa til nútímakörfuboltans í Evrópu til að ná betri árangri og það væri gaman að sjá hér fleiri þjálfaranámskeið á Íslandi þar sem topp evrópskir þjálfarar koma og sýna okkur það nýjasta sem er að gerast í Evrópu og koma með nýjar hugmyndir í leikinn hjá okkur. Ég hef aldrei átt í slæmum samskiptum við dómara, þó ég hafi þurft að aðlagast töluvert leiknum hér fyrstu tvö árin, sérstaklega hvernig þeir dæma þrjár sekúndur, en að sjálfsögðu gera þeir sín mistök eins og ég og allir sem stunda þessa íþrótt. En ég hef hitt marga íslenska dómara sem eru í evrópskum háklassa, það er alveg á hreinu.

Einhver skilaboð að lokum til stuðningsmanna Tindastóls? –Ég tel okkar stuðningsmenn vera gríðarlega mikilvæga, þeir eru okkar sjötti maður á vellinum hvort sem liðið er að tapa eða vinna. Ég get lofað þeim því sem þjálfari að mínir leikmenn munu berjast um hvern einasta bolta og alltaf gefa allt sitt í leikina. Ég sendi stuðningsmönnum okkar mínar bestu kveðjur og ég hlakka mikið til að eiga samstarf við þá í framtíðinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir