Mikilvægar kosningar framundan – Leiðari Feykis
Nú er rétt rúm vika í sameiningarkosningar og spennan alveg að fara með mannskapinn, eða ekki! En hvernig sem spennan er þá verður kosið þann 19. febrúar næstkomandi um sameiningu Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps annars vegar og Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar hins vegar.
Rétt til að kjósa hafa allir 18 ára og eldri sem eru á kjörskrá í viðkomandi sveitarfélagi og er alls ekki ónauðsynlegt að hvetja fólk til að mæta á kjörstað. Kjörskrár liggja frammi á skrifstofum sveitarfélaganna og á heimasíðu Þjóðskrár, skra.is, geta einstaklingar gengið úr skugga um hvort þeir séu ekki örugglega á kjörskrá og hvar þeir eigi að kjósa.
Kjörfundir fara fram víðsvegar í sveitarfélögunum en í Húnavatnssýslunni verða þeir tveir, á Blönduósi í norðurenda Íþróttamiðstöðvar frá kl. 10 til 20 og á Húnavöllum frá kl. 11 til 20 og skulu kjósendur hafa meðferðis persónuskilríki.
Kjörfundir verða nokkru fleiri í Skagafirði, einn í Akrahreppi þar sem kosið verður í Héðinsminni frá kl. 12 og í Sveitarfélaginu Skagafirði verður hægt að kjósa á sjö stöðum: Bóknámshúsi FNV á Sauðárkróki frá kl. 9, Félagsheimilinu Höfðaborg á Hofsósi frá kl. 10, Varmahlíðarskóla frá kl. 10, Félagsheimilinu Ketilási frá kl. 12, Grunnskólanum á Hólum frá kl. 12 og Félagsheimilinu Árgarði í Steinsstaðahverfi frá kl. 12 og Skagaseli frá kl. 12.
Á heimasíðu sameiningarnefndarinnar í Skagafirði segir að kjörfundi megi slíta átta klukkutímum eftir að kjörfundur hefst, enda sé þá hálf klukkustund liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram, og hvenær sem er ef allir sem á kjörskrá standa hafa greitt atkvæði. Kjörfundi má einnig slíta fimm klukkustundum eftir opnun ef öll kjörstjórnin er sammála um það, enda sé þá hálf klukkustund liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram. Þetta kallar á að fólk mæti tímanlega til kjörfundar.
Aðsetur kjörstjórnar í Sveitarfélaginu Skagafirði verður í Bóknámshúsi FNV á Sauðárkróki en í öðrum sveitarfélögum á viðkomandi kjörstöðum á kjördag. Talning atkvæða fer fram þar sem kjörstjórn hefur aðsetur og hefst eftir að öllum kjörstöðum hefur verið lokað. Verða atkvæða talin og úrslit birt m.a. á skagfirdingar.is og hunvetningur.is.
Mig grunar að íbúar Blönduóss, Húnavatnshrepps og Akrahrepps muni ekki láta sig vanta á kjörstað en stóra spurningin er hvað íbúar Svf. Skagafjarðar muni gera. Síðast þegar var kosið í Skagafirði, árið 2005, var kjörsókn þar í algjöru lágmarki og óvíst hvort úrslit hafi sagt til um hug íbúanna til sameiningar. Því segir ég: Ekkert kæruleysi og mætum á kjörstað og kjósum með hjartanu!
Góðar stundir
Páll Friðriksson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.