Mikil veikindi í leikskólanum Ársölum á Sauðárkróki
Á heimasíðu Svf. Skagafjarðar er biðlað til foreldra um að halda börnum sínum heima ef þeir mögulega geta en eins og kunnugt er er talið að veikindi vegna Covid-19 nái hámarki á næstu tveimur vikum. „Á Sauðárkróki eru mikil veikindi og fjölmargir starfsmenn fyrirtækja og stofnana heima vegna þeirra. Leikskólinn Ársalir er engin undantekning þar á,“ segir í fréttinni.
Enn fremur segir að ítrekað hafi þurft að grípa til þess að senda börn heim vegna starfsmannaeklu og loka deildum. „Sveitarfélagið Skagafjörður vill forðast í lengstu lög að loka leikskólanum alveg vegna veikinda. Því biðlar sveitarfélagið nú til þeirra foreldra sem mögulega geta að þeir haldi börnum sínum heima fram að helgi. Vonast er til að ástandið verði orðið betra eftir helgi en engu að síður er ekki útilokað að áfram þurfi að grípa til einhverra ráðstafana þar til faraldurinn gengur niður.
Tökum vel utan um leikskólann okkar og hjálpumst að við að klára þetta,“ segir að lokum í fréttinni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.