Mikið um dýrðir á Skúnaskralli

Barnamenningarhátíðin Skúnaskrall sem haldin er í fyrsta sinn víðs vegar á Norðurlandi vestra stendur nú yfir en ýmis námskeið, vinnustofur og listviðburðir prýða dagskrá hátíðarinnar. Meginreglan er að aðgangur sé ókeypis og veiti því öllum börnum og ungmennum á Norðurlandi vestra tækifæri til að upplifa og vinna að fjölbreytileika listsköpunar.

Skúnaskrall hófst mánudaginn 25. apríl á opnu húsi í Höfðaskóla og síðan hefur hver viðburðurinn rekið annan á svæðinu.

Verkefnið er liður í sóknaráætlun Norðurlands vestra og er stjórn hátíðarinnar ráðin af samtökum sveitarfélaganna sem einnig veita fjármagni í verkefnið og halda utan um bókhald en að öðru leyti er verkefnið fjármagnað af styrkveitingum.

Mikið hefur verið að gera á Skúnaskralli í dag en klukkan 9 í morgun mætti Lalli Töframaður í Hóla áður en hann heimsótti krakkana á Hofsósi. Í Varmahlíð og Árskóla á Sauðárkróki var boðið upp á sýninguna Harmleikur í textíl þar sem Gudrun Kloes túlkar söguna af Gretti sterka í textílverkum en hún mun kynna hana fyrir nemendum í öllum grunnskólum á Norðurlandi vestra á hátíðinni. Gudrun hefur hlotið mikið lof fyrir verk sín, nú síðast á Barnamenningarhátíð í Reykjavík.

Þá stendur nú yfir Sturlað fjör á 1238 og klukkan 16 verður boðið upp á badminton í íþróttahúsinu á Króknum fyrir yngstu börnin, 4 ára og eldri en í kynningu segir að um hressandi námskeið sé að ræða fyrir alla sem langar að prófa.

Vortónleikar Tónlistarskólans á Sauðárkróki hefjast klukkan 16 í matsal Árskóla og hálfri stund síðar danssýning Tónadans í Varmahlíð.

Á Blönduósi býður bókasafnið upp á ratleik vikuna á enda þar sem börn og foreldrar eða forráðamenn þeirra geta komið, sótt leiðbeiningar og tekið þátt.

Hátíðin stendur fram að sunnudeginum 15. maí og eru yfir hundrað viðburðir á dagskrá um allan landshlutann. Hægt er að fylgjast með dagskránni á heimasíðu Skúnaskralls, www.skunaskrall.is, og Facebook-síðu hátíðarinnar. „Barnamenningarhátíð Norðurlands vestra er spennandi verkefni sem vonandi fær að stækka og dafna í framtíðinni og verða fastur liður í menningarstarfi barna á svæðinu“ segir í tilkynningu SSNV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir