Mikið tjón er bíl var ekið inn í Sauðárkróksbakarí í morgun
Um klukkan fimm í morgun var ekið á suðurvegg Sauðárkróksbakarís og inn á mitt gólf afgreiðslusalarins. Eigandi og yfirbakarinn, Snorri Stefánsson, var eini starfsmaðurinn í húsinu þegar atvikið átti sér stað en hann var staddur í öðru rými bakarísins þegar ósköpin gengu yfir.
„Það er allt ónýtt þarna inni. Ég þarf að byrja á því að tína allt út og svo byggja upp á ný. Ég reikna ekki með því að hér verði opið næstu tvo mánuðina,“ segir Snorri aðspurður um tjónið sem hann segir mjög mikið. „Þetta er það mikið tjón að það er bara vangefið!“ Snorri segi að það góða í þessu sé hve margir hafi haft samband og boðið fram aðstoð sína við að taka til eða annað.
Snorri var inni í húsinu þegar þetta gerist en í öðrum sal og því ekki í neinni hættu á þeirri stundu. En það hefði getað farið öðru vísi. „Við getum ímyndað okkur það að ef ég hefði verið að ná mér í kaffi á þessum tímapunkti væri ég ekki að tala við þig.“
Fyrir utan það að afgreiðslan verður lokuð þann tíma sem tekur að byggja hana upp á ný segir Snorri starfssemi bakarísins ekki riðlast að öðru leyti en því að ekki verða afgreidd brauð í búðir á morgun en hann segist eiga von á því að geta sent vörur út á þriðjudag.
Að sögn lögreglunnar á Norðurlandi vestra er ökumaður bifreiðarinnar grunaður um ölvun við akstur og vistaður í fangaklefa. Brunavarnir Skagafjarðar var kallað út til að ná bílnum út, hreinsa upp olíu á gangstétt og innan dyra en einnig var vatnsleki sem þurfti að eiga við.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.