Mikið tjón á bifreiðum vegna blæðinga í malbiki

Skjáskot af myndbandi á vef mbl.is
Skjáskot af myndbandi á vef mbl.is

Lögreglan á Norðurlandi vestra varar við miklum tjörublæðingum á vegarkaflanum úr Borgarfirði og norður um land. Tilkynnt hefur verið um tjón á bifreiðum og segir í tilkynningu lögreglunnar að eitt umferðaróhapp megi rekja til þessara aðstæðna sem valda því að tjaran sest í munstur hjólbarðanna og aksturshæfni þeirra skerðist. Þá skapast einnig hætta af steinkasti frá bifreiðum sem á móti koma. Ökumenn eru því beðnir að hafa varann á, fylgjast með hjólbörðum bifreiða sinna og og jafnframt að sýna annarri umferð tillitssemi.

Í fréttum Ríkisútvarpsins í morgun sagði frá því að Magnús Svavarsson, framkvæmdastjóri Vörumiðlunar á Sauðárkróki hefur tilkynnt Vegagerðinni um milljónatjón á fjölmörgum vörubílum fyrirtækisins vegna blæðinganna. Segir hann að stórhættulegt sé að vera í umferðinni við þessar aðstæður.

Fleiri hafa orðið fyrir verulegu tjóni. Á visir.is segir Ívar Örn Smárason farir sínar ekki sléttar en framrúðan á bifreið hans er  tvíbrotin eftir að hann mætti öðrum bílum, þrátt fyrir að allir hafi hægt mjög mikið á sér. Einnig brotnaði framstuðari hans eftir að mikil vegklæðning hafði safnast saman í hjólskálinni og gert það að verkum að stuðarinn brotnaði.

Í frétt á mbl.is segist Friðfinnur Tómasson, sem var á ferð í gærkvöldi ásamt fjölskyldu sinni, hafa séð flygs­ur skjót­ast úr bíln­um fyr­ir fram­an þau og að grjót og mal­bik hafi lent á rúðunum úr bíl­um sem óku á móti þeim.

Eins og áður segir er um að ræða vegkaflann frá Borgarfirði og norður í Skagafjörð en ástandið virðist vera verst milli Staðarskála og Blönduóss sé miðað við lýsingar viðmælenda fréttastofanna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir