Mikið byggt á Króknum
Mikið var um að vera hjá iðnaðarmönnum á Króknum í síðustu viku. Blaðamaður Feykis tók rúnt um bæinn og tók nokkrar myndir af mönnum og verkefnum.
Fyrst lá leiðin í Hús frítímans og þar var allt á lokasprettinum en nú fer að styttast í að sveitarfélagið fái lyklana afhenta að húsinu. Stefnt er að því að það verði um næstu helgi en þá verður stærsti hluti hússins tekinn í notkun. Vígsla hússins fer svo fram tveimur vikum síðar. Það er Trésmiðjan Ýr sem sér um verkið.
Svo lá leiðin í leikskólann við Árkíl sem gárungarnir eru strax búnir að uppnefna Kílakot. Þar er verið að vinna við jarðvegsskipi og eru það Víðimelsbræður sem annast það verk. Allur bílafloti þeirra var í þessu verki þann daginn en Víðimelsbræður eru líka með lengingu suðurgarðsins en ef slæmt er í sjó geta þeir fært mannskapinn í þetta verk.
Þaðan lá leiðin upp í Kleifartún þar sem K-Tak með Knút Aadnegard í fararbroddi var að steypa þar sem hann byggir þjónustuíbúðir fyrir Þroskahjálp. Rafvirkjar og múrarar voru á ferli á svæðinu ásamt steypudælu- og bílstjórum.
K-Tak er einnig með pósthúsbygginguna en þar hitti blaðamaður Hörð Knútsson yfirsmið og Eyjólf Þórarinsson frá Stoð og voru þeir að fara yfir áætlanir um hvernig megi flýta afhendingu pósthússins en sú ósk kom fram hjá verkkaupa. Annars á að afhenda pósthúsið samkvæmt verksamningi þann 23. maí n.k.
Í Mjólkursamlagi KS er allt á fullu við að gera klárt áður en vélar verða settar inn en samlagið er að fara í vinnslu á rifostum sem áður var framleitt í Osta og smjörsölunni. Rifostar eru eins og segir í nafninu rifinn ostur sem mest eru notaðir á flatbökur. Áætlað er að vélarnar verði settar í gang 9. febrúar.
Bílaverkstæði KS er hálfgerð höll svo stór er hún en alls er grunnflötur hússins um 3300 fermetrar. Innan veggja byggingarinnar er ætlunin að verði fólksbíla-, vörubíla-, sprautu- og rafmagnsverkstæði. Áætlað er að verktakar skili húsinu 31. mars og endanleg dagsetning á vígslu hússins er ekki alveg ákveðin en kaupfélagsmenn vonast til að það geti orðið á 120 ára afmæli KS þann 23. apríl n.k. Það er Friðrik Jónsson ehf sem byggir samlag og verkstæði KS.
Kaffi Krókur varð síðastur fyrir barðinu á myndavélinni en þar er verið að byggja upp eftir bruna. Ekki er endanlega búið að skipuleggja hvernig rekstri hans verður háttað í framtíðinni en ýmislegt er í athugun.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.