Menntaátak – Tilraunaverkefni í Norðvesturkjördæmi

Við Íslendingar teljum okkur oft til tekna hversu vel menntuð þjóð við erum og í þeim efnum hefur margt áunnist á undanförnum áratugum. Hæst ber þar mikil fjölgun á háskólamenntuðu fólki sem nú er um 30% einstaklinga á vinnumarkaði. Tilkoma nýrra háskóla, samhliða eflingu Háskóla Íslands, skýrir þessa heillavænlegu þróun. Sérstakt ánægjuefni er styrking háskólastarfs á landsbyggðinni þar sem fjórir háskólar hafa gjörbreytt menntastöðu í hinum dreifðu byggðum landsins. Háskólastarf á Bifröst, Hvanneyri, Hólum og Akureyri hefur skipt sköpum í þróun menntunar á landsbyggðinni sem og háskólasetur á Ísafirði. Það er mikilvægt að heimamenn og kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum og á Alþingi skynji þetta og standi vörð um starfsemi háskólanna.

Hins vegar eru rúm 30% einstaklinga á vinnumarkaði  einungis með grunnskólapróf og það hlutfall hefur lítið breyst undanfarin 20 ár. Þetta gæti reynst einhver mesti veikleikinn í íslensku samfélagi nú í lok kreppunnar. Sambærileg tala í Danmörku er einungis um 10% og hafa stjórnvöld þar sett sér það markmið að ná því hlutfalli niður í 5%.

Samhengi menntunar og atvinnuleysis

Beint samhengi er á milli atvinnuleysis og menntunar. Um helmingur atvinnuleitenda er úr þeim hópi sem minnsta menntun hefur og  þar sem ný störf kalla á menntað starfsfólk, einkum í verk- og tæknigreinum, er hætta á því að minnst menntaði hópurinn sitji eftir án atvinnu þegar kreppunni lýkur og störfum fjölgar. Brýna nauðsyn ber því til að gera þessum stóra hópi fólks kleift að bæta menntunarstöðu sína á vinnumarkaði til að auka aðgengi einstaklinga að nýjum störfum og fjárfesta í fólki á vinnumarkaði.

Meðal svokallaðra 2020 markmiða er að hlutfall Íslendinga á aldrinum 25-64 ára sem ekki hafa formlega framhaldsmenntun fari úr 30% niður í 10% árið 2020. Lítið hefur miðað í þessa átt undanfarin ár og þarf verulega að slá í klárinn eigi þetta markmið að nást á næstu árum.

Verkefnið er gríðarstórt, flókið og kostnaðarsamt en það er jafnframt eitthvert brýnasta samfélagsmál okkar tíma. Tugir þúsunda einstaklinga, sem flestir hafa hætt eftir grunnskólanám eða horfið frá námi í framhaldsskólum á sínum tíma, bíða þess að fá annað tækifæri til náms sem mun styrkja stöðu þeirra og veita ný tækifæri.

Þegar hafa verið settar fram af hálfu velferðarráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra tillögur í þessum efnum í viðræðum við forsvarsmenn aðila vinnumarkaðarins, sem hafa sýnt frumkvæði og áhuga á að bæta þarna úr.  Tillögurnar hafa sömuleiðis verið ræddar á vettvangi ríkisstjórnar og ráðherranefndar um atvinnumál. Slíkt risamenntaátak þarfnast ítarlegs undirbúnings og fjármögnunar í samstarfi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Eðlilegt er að skoða þetta stóra mál samhliða gerð næstu kjarasamninga eftir kosningar.

Samstaða um tilraunarverkefni í Norðvesturkjördæmi

Til að útfæra og meta raunhæfni slíks þjóðarátaks í menntamálum þarf að vinna ítarlega undirbúningsvinnu. Þáttur í því er að setja upp svæðisbundin tilraunaverkefni þar sem markmið er m.a.:

•          Að kanna eftirspurn meðal einstaklinga á vinnumarkaði fyrir endurmenntun.

•          Að þróa samstarf símenntunarmiðstöðva, framhaldsskóla og háskóla varðandi endurmenntun á vinnumarkaði.

•          Að innleiða og þróa matskerfi hjá símenntunarmiðstöðvum á fyrra námi og raunfærni sem viðurkennd er af öðrum skólastigum.

•          Að meta kostnað.

•          Að þróa nýjar námsleiðir í samstarfi menntakerfis og atvinnulífs á einstökum svæðum út frá þörfum þar.

•          Að kanna þörf fyrir námsstyrki, þróa og prófa útfærslur á slíku kerfi í framhaldi af þeirri vinnu sem unnin var innan Náms er vinnandi vegur fyrir atvinnuleitendur.

Ákveðið hefur verið að skoða tvö svæði til slíks tilraunaverkefnis og hafa Norðvesturkjördæmi og Breiðholt orðið fyrir valinu.

Í Norðvesturkjördæmi er gott þversnið af íslensku atvinnulífi, stóriðja, sjávarútvegur, ferðaþjónusta, landbúnaður og margvísleg þjónusta. Þar eru þrjár öflugar símenntunarstöðvar, fimm framhaldskólar auk framhaldsdeilda og þrír háskólar auk háskólaseturs. Íbúar eru um 26 þúsund manns.

Á fjölmennum fundi í Háskólanum á Bifröst miðvikudaginn 13. febrúar sl. var verkefnið kynnt forsvarsmönnum símenntunarstöðva, framhaldsskóla, háskóla, sveitarfélaga, stéttarfélag og fyrirtækja. Lagt var til að það hefjist strax næsta haust og standi í eitt eða tvö ár. Fjármögnun þessa stóra verkefnis hér í kjördæminu hefur verið tryggð í samstarfi ráðuneyta velferðar og mennta og menningarmála við atvinnulífið.

Fundarmenn tóku hugmyndinni fagnandi og er málið nú í höndum heimafólks en sérstök verkefnastjórn um það verður skipuð á næstu dögum og verkefnastjóri ráðinn. Síðan er bara að hefjast handa!

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og þingmaður NV-kjördæmis

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir