Menningarhús verður byggt á Sauðárkróki - Áætluð verklok verði 2027
Á atvinnulífssýningunni „Skagafjörður : Heimili Norðursins“ sem sett var í morgun í Íþróttahúsinu á Sauðárkróki, rituðu Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, og Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar, undir samkomulag um byggingu Menningarhúss á Sauðárkróki en það var einmitt á atvinnulífssýningu á sama stað sem viljayfirlýsing var undirrituð um framkvæmdina 2018.
Í setningarræðu Sigfúsar Inga kom fram að með samkomulaginu væri búið að festa fjármögnun endurbóta og að stofnframlagi, sem nemi 1.517 m.kr., verði varið til 1.252 m2 viðbyggingar, auk endurbóta á Safnahúsi Skagfirðinga á Sauðárkróki.
„Með hinu nýja húsi mun verða gjörbylting á allri aðstöðu til fjölbreyttra sviðslista og sýningarhalds, s.s. á myndlist, höggmyndalist, ljósmyndum og í raun fjölbreyttum list- og menningarformum, auk þess sem í byggingunni munu rúmast bókasafn, listasafn, skjalasafn og tengd fræðastarfsemi, svo og rými fyrir varðveislu á munum og gögnum þessara safna. Framlag ríkisins nemur 60 hundraðshlutum og sveitarfélagsins 40 hundraðshlutum. Undirbúningur hefst í kjölfar þessarar undirritunar og er áætlað að verklok verði á árinu 2027 þegar glæsilegt menningarhús á Sauðárkróki verður tekið í notkun.
Hér er um mikið og stórt framfaraskref að ræða og þökkum við Lilju Dögg Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra kærlega fyrir hennar öfluga framlag við að gera samkomulagið að veruleika,“ sagði Sigfús Ingi.
Í samtali við Feyki sagði Lilja Dögg að þetta væru mikil tímamót og gleðileg.
„Þetta hefur verið langur aðdragandi en það hefur staðið til að reisa hér menningarhús í Skagafirði í yfir 20 ár en við undirrituðum viljayfirlýsingu hér á atvinnulífssýningunni 2018 og höfum verið að vinna að framgangi þess. Það er búið að tryggja fjármögnun og mikill metnaður sem býr að baki þess að reisa menningarhúsið. Við sjáum að skapandi greinar eru að sækja í sig veðrið og Skagafjörður er mjög ríkur af menningu, hvort sem það er söngur, leiklist, myndlist eða annað og það sem menningarhúsið á að gera er að lyfta upp skagfirskri menningu í sambland við allt landið. Ég tel að þetta hús verði algjör sómi fyrir þetta sveitarfélag og landið allt,“ segir Lilja Dögg.
Næstu skref er að fara í hönnunarvinnu og segir Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður og fyrrverandi sveitarstjórnarmaður í Skagafirði, að ekkert sé því til fyrirstöðu að hefjast handa við þetta verkefni. Hann er mjög ánægður með áfangann enda lagt mikla vinnu við að þoka verkefninu áfram.
„Hönnunarsamkeppnin er framundan og að henni lokinni farið í framkvæmdir þannig að gleðiefnið er að fjármagnið er klárt og ekkert því til fyrirstöðu núna að fara af stað í þetta frábæra verkefni. Þetta er mjög gleðilegt fyrir mig persónulega. Þegar ég var hér í sveitarstjórn var þetta eitt af þeim verkefnum sem ég barðist mjög ötullega fyrir ansi lengi. Þó viljayfirlýsingin hafi komið 2018 þá var löngu áður byrjað að vinna að því að komast á þann stað sem við erum í dag,“ segir Stefán Vagn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.