Menningardagskrá Gránu hefur fengið frábærar viðtökur

Frá dagskránni Aðalgatan á aðventu sem fór fram í gær fyrir fullum sal af fólki. MYND: ÓMAR BRAGI
Frá dagskránni Aðalgatan á aðventu sem fór fram í gær fyrir fullum sal af fólki. MYND: ÓMAR BRAGI

Í gærkvöldi var notaleg kvöldstund í útbænum á Króknum í boði Menningarfélags Gránu. Þá mætti Páll Snævar Brynjarsson í heimsókn í Gránu og rifjaði upp ævintýri og búðarrölt þar sem hann og Sverrir Björn Björnsson léku jólasveina í Aðalgötunni á aðventunni 1978. Segja má að aðsókn hafi farið fram úr björtustu vonum, veitingasalurinn í Gránu troðfullur, og margur gamall og genginn Króksarinn lifnaði við í hugum gesta þegar sögur voru rifjaðar upp og myndir sýndar á tjaldi.

Palli, sem búið hefur í Borgarnesi síðustu 20 árin en er Króksari af '65 árgangi, sagði í byrjun að fyrstu árin hafi hann verið fyrir hádegi á Hólmagrundinni þar sem foreldrarnir bjuggu, en eftir hádegi í Aðalgötunni, nánar tiltekið í Apótekinu þar sem afi hans og amma, apótekarinn Ole og Minna Bang, bjuggu. Árin áður en Skaffó opnaði syðst í bænum, þegar gamli bærinn var enn miðbærinn, þá lá leið skólakrakkanna út í bæ þar sem skátaheimilið í Gúttó spilaði stóra rullu og heimsóknir í bakaríið og ekki síst til Búbba voru fastur partur í tilverunni. Palli fetaði semsagt slóð jólasveinanna milli búðanna í Aðalgötunni, minntist fólksins á bak við búðarborðin og sagði sögur tengdar þeim.

Jólin í Gránu á laugardag og Bergur Ebbi boðar komu sína í byrjun árs

Sem fyrr segir var þessi viðburður partur af haust- og vetrardagskrá Menningarfélagsins Gránu en þar er Áskell Heiðar Ásgeirsson innsti koppur í búri. Viðburðirnir hafa verið af ýmsum toga; tónleikar, uppistand, kynningar og frásagnir. „Viðtökur hafa verið alveg frábærar, mikil aðsókn og ánægja með þetta framtak,“ segir Heiðar aðspurður um hvernig tekið hafi verið í dagskrána.

Og ekki stefnir í rólegheitin eftir áramót. „En það sem er næst á dagskrá eru tónleikarnir Jólin í Gránu nú á laugardag, þar eru enn örfá sæti laus og síðan hefjum við nýtt ár á stórviðburði, hinn frábæri Bergur Ebbi verður hér með uppistand 12. jan næstkomandi. Upplagt að gefa upplifun í jólagjöf og kaupa miða á hann á tix.is,“ segir Áskell Heiðar að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir