Meistararúntur klukkan hálf sjö í kvöld
Íslandsmeistarar Tindastóls munu fara rúntinn í gegnum Sauðárkrók klukkan 18:30 í dag á leið sinni fram í Miðgarð þar sem uppskeruhátíð körfuknattleiksdeildar Tindastóls fer fram með pomp og prakt í kvöld. Á leiðinni mun fararskjóti meistaranna nema staðar við Síkið í skamma stund og því möguleiki að fagna köppunum.
Það kannski viðrar ekki vel til útihátíðar í dag og allar líkur á því að sólin og suðvestanáttin muni taka þátt í fögnuðinum. En við látum það nú varla á okkur fá og samfögnum.
Á morgun mætir liðið síðan á atvinnulífssýninguna í Síkinu kl. 16:00 og þar ætti fólk að geta óskað strákunum og aðstandendum liðsins til hamingju með titilinn. Þá ætti fólki að gefast tækifæri til að taka myndir af sér með Íslandsmeistarabikarnum.
Uppskeruhátíðin er sem fyrr segir í Miðgarði í kvöld og það ku, samkvæmt upplýsingum Feykis, vera uppsellt á hátíðina. Efalaust verður hægt að smella sér á ballið með Stuðlabandinu og Úlfur Úlfur þegar það hefst.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.