Meistaranemar MAR-BIO fóru vítt og breitt um Norðurland
Í frétt á heimasíðu Háskólans á Hólum er sagt frá því að meistaranemar MAR-BIO heimsóttu skólann á dögunum. Íslandsheimsókn meistaranemanna mun hafa verið með fjölbreyttum hætti. Þau höfðu bækistöðvar á Hólum þar sem þau kynntu sér háskólalífið, heimsóttu bleikjukynbótastöðina og nýsköpunarfyrirtækið Isponica. Þau fóru einnig vítt og breitt um Norðurland.
Á Siglufirði var sjávarlíftæknifyrirtækið Primex heimsótt ásamt Síldarminjasafninu. Í Verinu á Sauðárkróki fengu nemarnir nánari kynningu á námi og rannsóknum í fiskeldis- og fiskalíffræðideild og héldu svo til Skagastrandar þar sem starfsemi Biopol var kynnt. Á Húsavík var Hvalasafnið heimsótt sem og bleikjueldisstöðin Haukamýri við Húsavík. Þá voru fóðurverksmiðjan Laxá á Akureyri og vinnslustöð Samherja á Dalvík einnig meðal áfangastaða hópsins.
MAR-BIO
„Háskólinn á Hólum er ásamt Háskólanum í Gautaborg í Svíþjóð og Nord háskólanum í Bodø í Noregi aðili að norrænu samstarfsverkefni um meistaranámið MAR-BIO. Námið snýr að sjálfbærri framleiðslu og nýtingu sjávarafurða og er hugsað sem þverfagleg tenging milli fiskveiða, fiskeldis og annar matvælaframleiðslu í sjó eða ferskvatni, með sérstakri áherslu á nýsköpun og frumkvöðla. Með MAR-BIO sameina norrænir háskólar því krafta sína með það að leiðarljósi að mennta næstu kynslóð sérfræðinga á þessu sviði.
Á fyrstu stigum námsins kynnast nemendur ýmsar hliðar sjálfbærni, nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi í þáttökulöndunum þremur en dvelja síðan að lágmarki eitt misseri námsins við annan skóla en heimaskólann.
Námsleiðir á borð við Mar-Bio námið, þar sem nágrannalönd vinna saman og nálgast viðfangsefnin sem blasa við heimsbyggðinni á svo áþreifanlegan hátt líkt og raun ber vitni með nýsköpun og nýtingu náttúruauðlinda á ákaflega vel heima í háskólanum á Hólum. Við hlökkum til að taka á móti þeim úr hópnum sem velja að gera Hóla að sinni bækistöð á næsta misseri,“ segir á Hólar.is.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.