Meirihluti sveitastjórnar Húnavatnshrepps telur ekki tímabært að sameinast Blönduósbæ
Það hefur eflaust ekki farið framhjá neinum sem les þennan miðil að kosið var um sameiningu sveitarfélaganna í Austur-Húnavatnssýslu þann 5. júní sl. Sameiningartillagan var felld í Skagabyggð með 54,7 % mótföllnum atkvæðum og á svf. Skagaströnd með 69,2 %. Tillagan var hinsvegar samþykkt í Blönduósbæ og Húnavatnshreppi með 89,4 % og 56,6 % fylgjandi atkvæðum.
Á fundi sveitastjórnar Húnavatnshrepps sem fram fór í gær, þann 22. júní, ályktaði meirihluti sveitastjórnar að ekki skuli vera gengið til annars konar sameiningarviðræðna að svo stöddu. Það hefur verið í umræðunni að Húnavatnshreppur og Blönduósbær sameinist vegna þess að íbúar sveitarfélagana beggja kusu með upphaflegu sameiningartillögunni.
Ályktunin er svo hljóðandi.
„Vegna niðurstöðu kosninga um sameiningu allra sveitarfélaganna í Austur-Húnavatnssýslu, þar sem tillaga um sameiningu var felld í Sveitarfélaginu Skagaströnd og Skagabyggð, en samþykkt í Húnavatnshreppi og Blönduósbæ, er ljóst að ekkert verður af sameiningu sveitarfélaganna í Austur-Húnavatnssýslu 2022. Meirihluti sveitastjórnar Húnavatnshrepps telur mjög mikilvægt að öll sveitarfélögin vinni áfram sameiginlega að þeim málaflokkum sem þau hafa nú þegar byggðasamlög um. Meirihluti sveitastjórnar telur ekki tímabært að hefja viðræður um annars konar sameiningu að svo stöddu að teknu tilliti til niðurstöðu nýafstaðinna sameiningarkosninga í Húnavatnshreppi.“
Ályktun þessi var samþykkt með fimm atkvæðum gegn tveimur.
Jón Gíslason, Jóhann Magnúsdóttir, Berglind Hlín Baldursdóttir fulltrúar A-lista framtíðar og Ragnhildur Haraldsdóttir og Sverrir Þór Sverrisson fulltrúar N-listans Nýs framboðs samþykktu ályktunina en Þóra Sverrisdóttir og Jón Árni Magnússon fulltrúar E-listans Nýs afls voru mótfallin henni.
/SMH
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.