Matgæðingur vikunnar - Lambalæri & marengs

Baldur og Helga. MYND AÐSEND
Baldur og Helga. MYND AÐSEND

Matgæðingar vikunnar eru Baldur Sigurðsson, eigandi Bílaþjónustu Norðurlands og umboðsmaður Bílaleigunnar Avis, og eiginkona hans, Helga Skúladóttir, starfsmaður Landsbankans, og eru þau búsett á Sauðárkróki. 

„Ég hef gaman af því að elda og þegar ég býð félögum mínum í mat verður oftast fyrir valinu saltað hrossakjöt með kartöflum, rófum, uppstúf, grænum baunum og rúgbrauði, svo ég tali nú ekki um að hafa Royal karamellubúðing með rjóma og súkkulaðispænum í eftirrétt,“ segir Baldur. Baldur hefur mjög gaman af því að halda matarboð en hér ætlar hann að koma með uppskrift af lambalæri og marengs.

AÐALRÉTTUR
Hægeldað lambalæri
    1 lambalæri, u.þ.b. 3 kíló
    ólífuolía
    lambakjötskrydd
    salt og pipar
    2 sætar kartöflur
    12 kartöflur
    6 gulrætur
    1 paprika
    2 rauðlaukar
    2 hvítlaukar
    piparkorn
    600 ml vatn

Aðferð: Ofninn hitaður í 80-100°C undir-og yfirhita. Lærið er snyrt, skolað og þerrað. Því næst er borin á það ólífuolía og það kryddað með lambakjötskryddi, salti og pipar. Kartöflur, sætar kartöflur og gulrætur flysjaðar og skornar í mátulega bita, passa að hafa bitana frekar litla. Laukurinn, paprikan og hvítlaukurinn sömuleiðis. Öllu raðað í botninn á steikarpotti, vatninu hellt yfir, dálitlu af piparkornum bætt út í og þá er lærið lagt yfir grænmetið. Steikarpottinum lokað og lærið látið steikjast í u.þ.b. sex til sjö tíma. Best er að stinga kjöthitamæli í lærið. Þegar það hefur náð 60-65 gráðu kjarnhita þá er lærið tilbúið. Þegar steikartíminn er liðinn er gott að taka lokið af pottinum og stilla ofninn á 220°C og grill. Lærið er grillað í u.þ.b. 10 mín. eða þar til puran er orðin dökk og stökk. Ef mögulega grænmetið er ekki alveg tilbúið á þessum tímapunkti þá er hægt að leggja lærið á bretti og hella grænmetinu í ofnskúffu og hitinn hækkaður í 200-220°C í u.þ.b. 10 mín. Á meðan er lærið að jafna sig áður en það er skorið niður og sniðugt væri að byrja á sósunni. Ath! vökvinn úr steikarpottinum er notaður í sósuna.

Sósan:

Vökvinn í ofnpottinum er síaður frá kartöflunum og grænmetinu. Gott er að fleyta mestu fituna ofan af vökvanum. Því næst er útbúin smjörbolla.40 g smjör
    40 g hveiti
    3 dl rjómi
    2-3 tsk. lambakraftur (eða nautakraftur)
    2 tsk. rifsberjahlaup
    1 msk. sojasósa
    sósulitur
    salt og pipar

Aðferð: Smjörið er brætt í potti og hveitinu þeytt saman við. Því næst er síaða vökvanum bætt út í smjörbolluna smátt og smátt á meðalhita og pískað vel á meðan. Þá er rjómanum bætt út í auk lambakrafts og sósan smökkuð til með kryddum, rifsberjahlaupi og sojasósu. Ef sósan er þunn er hægt að þykkja hana með sósujafnara.

EFTIRRÉTTUR
Maregns með karamellukremi

Marengs:
    220 g sykur
    4 eggjahvítur
    2 og 1/2 bolli Kornflex
    1 tsk. lyftiduft

Aðferð: Ofninn hitaður í 120°C með blæstri. Eggjahvítur, lyftiduft og sykur þeytt saman þar til marengsinn er orðinn stífur. Þá er kornflexi bætt varlega út í marengsinn með sleikju. Diskur eða kökuform sem er u.þ.b. 23 sm í þvermál er lagður á bökunarpappír og strikaður hringur eftir disknum. Þetta er gert tvisvar. Marengs-inum er skipt í tvennt og hann settur á sinn hvorn hringinn. Því næst er sléttað jafnt úr marengsinum innan hringsins með sleikju eða spaða. Þá er marengsinn settur inn í heitan ofninn í u.þ.b. 50 – 60 mínútur. Best er að láta marengsinn kólna í ofninum.

Rjómafylling:
    5 dl rjómi
    150 g Nóa karamellukurl (1 poki)
    250 g fersk jarðarber, skorin í bita
    1-2 þroskaðir bananar, skornir í bita

Aðferð: Rjóminn er þeyttur og Nóa karamellukurlinu ásamt jarðarberjunum og bönununum er bætt út í rjómann. Rjómablandan er svo sett á milli marengsbotnanna.

Karamellukrem:
    4 eggjarauður
    4 msk. flórsykur
    100 g Sirius Pralin súkkulaði með saltkaramellufyllingu
    2 msk. rjómi eða mjólk

Aðferð: Eggjarauður og flórsykur þeytt vel saman. Súkkulaðið er sett í skál ásamt 2 msk. af rjóma eða mjólk og brætt yfir vatnsbaði. Eggjarauðu- og flórsykurblöndunni er svo blandað út í súkkulaðið. Kreminu er því næst dreift yfir marengstertuna. Skreytt með berjum, t.d. jarðarberjum.

Verði ykkur að góðu!

Baldur og Helga skora á Arndísi Björk Brynjólfsdóttur og Björn Jónsson frá Vatnsleysu

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir