Markasúpa og bikarinn á loft
Það var fjör á KS-vellinum á Króknum í gær þegar kvennalið Tindastóls tók á móti liði FH í Lengjubikarnum. Leikurinn minnti svolítið á sumarið 2019 hjá Stólastúlkum, þær skoruðu helling af mörkum og fengu helling á sig en lokatölur, eftir mikla dramatík á lokamínútunum þar sem víti fór í súginn, voru 4-5 fyrir gestina. Að leik loknum fór síðan fram verðlaunaafhending vegna sigurs Tindastóls í Lengjudeildinni í fyrra.
Lið FH var komið yfir eftir fjórar mínútur þegar Elín Björg skoraði. Esther Rós bætti við öðru marki á 13. mínútu en í millitíðinni höfðu heimastúlkur fengið ágætt færi sem fór forgörðum. Eins og stundum áður þá gekk Stólastúlkum illa að halda í boltann og þar munaði líka um að Jackie var fjarri góðu gamni. Þrátt fyrir óöryggi í vörninni er lið Tindastóls alltaf líklegt til að skora og Bryndís Rut, fyrirliði, sópaði boltanum í mark FH á 22. mínútu eftir að boltinn hafði dottið til hennar á auðum sjó. Lið FH lét boltann ganga hratt og stutt og þær voru snöggar að kvitta fyrir því Brynhildur Brá gerði þriðja mark Hafnfirðinga aðeins þremur mínútum síðar. Murielle slapp inn fyrir vörn FH á 32. mínútu, fékk langa sendingu fram og nýtti kraft sinn og styrk og skoraði af öryggi. Staðan 2-3 í hálfleik.
Elísa Lana og Elín Björg bættu við tveimur mörkum fyrir FH snemma í síðari hálfleik, staðan orðin 2-5, og stefndi í hálf dauflega verðlaunaafhendingu að leik loknum. Stólastúlkur settu þá undir sig hausinn og Laufey Harpa átti skot úr aukaspyrnu sem small í þverslánn. Á 62. mínútu minnkaði Krista Sól muninn með marki eftir ágæta skyndisókn og skömmu síðar minnkaði María Dögg muninn í eitt mark.
Þar við sat. María Dögg klikkaði á víti í uppbótartíma en bæði lið gerðu sitt besta til að bæta við mörkum. Amber var kominn í mark Tindastóls á ný og hún hafði nóg að gera; bæði við að sækja boltann í markið og oft á tíðum varði hún mjög vel. Lið FH spilar í 1. deildinni í sumar eftir að hafa fallið úr Pepsi Max-deildinni á síðasta ári en lið þeirra spilar fínan fótbolta.
Ágæt mæting var á leikinn enda veður hið besta og stuðningsmenn vildu samgleðjast liði Tindastóls sem fékk loka að lyfta bikarnum fyrir sigur í 1. deildinni (Lengjudeildinni) síðasta sumar og fengu stelpurnar afhenta verðlaunapeninga. Stemningin var ljúf og leikandi hress með flugeldasýningu og fögnuði. Það er enda ekki á hverjum degi sem lið Tindastóls lyfta bikar. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.