María Finnbogadóttir á Vetrarólympíuhátíð
Vetrarólympíuhátíð Evrópuæskunnar fer fram í Erzurum í Tyrklandi 12. – 17. febrúar. Ísland á sem fyrr keppendur á leikunum, nú í alpagreinum, skíðagöngu, listskautum og á snjóbretti. Keppendur á leikunum eru á aldrinum 14 til 18 ára, þátttökuþjóðir eru 34 og þátttakendur eru um 1200. Meðal keppenda er Skagfirðingurinn María Finnbogadóttir sem keppir í Alpagreinum.
Setningarhátíðin fer fram næstkomandi sunnudag kl. 16:30 á íslenskum tíma og stendur fram á föstudag. Íslenski hópurinn fór utan í morgun en aðalfararstjóri í ferðinni er Örvar Ólafsson verkefnastjóri á Afreks- og Ólympíusviði ÍSÍ og sjúkraþjálfari er Halla Sif Guðmundsdóttir.
María sem er á 17. aldursári stundar nám í hótel- og ferðamálafræðum í Bad Hofgastein í Salzburg, Austuríki þar sem skíðasport er í hávegum haft (Tourismusschule Bad Hofgastein). Til þess að lesendur geti áttað sig betur á Maríu þá er hún dóttir Önnu Jónu Guðmundsdóttur leikskólastjóra á Sauðárkróki og Finnboga Baldvinssonar frá Akureyri.
Nánari upplýsingar eru á heimasíðu Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.