Margrét Rún stendur í marki U17 um helgina

Magnús Örn Helgason, landsliðsþjálfari U17 kvenna í fótbolta, hefur valið Margréti Rún Stefánsdóttur í hópinn sem tekur þátt í undankeppni EM 2022. Ísland er þar í riðli með Norður Írlandi, Serbíu og Spáni og verður riðillinn leikinn í Serbíu dagana 24.-30. september.

Margrét Rún hefur staðið milli stanganna í yngri flokkum Tindastóls en einnig komið við sögu í þremur leikjum meistaraflokks þrátt fyrir ungan aldur en hún hefur verið varamarkmaður Stólanna sl. tvö tímabil. Margrét Rún er dóttir þeirra Einarínu Einarsdóttur og Stefáns Reynissonar á Sauðárkróki.

Leikirnir framundan munu verða þeir fyrstu undir stjórn Magnúsar, en hann tók á dögunum við af Jörundi Áka Sveinssyni. Magnús Örn er 32 ára gamall Seltirningur sem lék upp yngri flokka Gróttu áður en hann sneri sér að þjálfun. Á vef KSÍ kemur fram að Magnús hafi þjálfað flesta aldurshópa hjá Gróttu auk þess að gegna starfi yfirþjálfara yngri flokka árin 2014-2017. Síðustu ár hefur Magnús komið að starfi yngri landsliðanna, m.a. greiningarvinnu og annarri aðstoð í verkefnum U17 kvenna, auk æfinga, úrtökumóta og kennslu á þjálfaranámskeiðum.

Fyrirkomulagi keppninnar hefur verið breytt og er leikið með sama fyrirkomulagi og í Þjóðadeild UEFA. Tvær deildir eru í keppninni og er Ísland í A deild. Undankeppnin er eins og áður í tveimur hlutum, en það lið sem endar í neðsta sæti síns riðils í A deild fellur niður í B deild fyrir næsta hluta undankeppninnar. Þau sex lið sem vinna sína riðla í B deild komast upp í stað þeirra ásamt því liði í þeirri deild sem er með bestan árangur í öðru sæti.

Þær sjö þjóðir sem vinna sína riðla í A deild í öðrum hluta undankeppninnar vinna sér inn sæti í lokakeppni EM 2022, en hún verður haldin í Bosníu og Hersegóvínu 3. -15. maí það ár.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir