Mannvistarleifar frá 10. öld finnast á Höfnum á Skaga

Öskuhaugurinn sést neðst fyrir miðri mynd. Mynd: Minjastofnun
Öskuhaugurinn sést neðst fyrir miðri mynd. Mynd: Minjastofnun

Í landi Hafna á Skaga var eitt sinn stór verstöð líklega frá landnámi og fram eftir öllum öldum og í gegnum tíðina hafa verið verbúðir á nokkrum stöðum eftir ströndinni í landi Hafna, m.a. við Rifsbúðir, Innri-Þrándarvík og á nesjunum beggja vegna Grútarvíkur og Sandvíkur. Sjórinn hefur brotið mikið af landinu á þessum stað og valdið miklum skemmdum á þeim minjum sem þarna eru og núna hefur gamall öskuhaugur komið í ljós sem stendur opinn. Í öskuhaugnum má greina gjóskulag frá árinu 1104 og eru mannvistarleifar bæði undir því og yfir sem og yfir öðru gjóskulagi sem er líklega frá 1300.

Þorbjörn Kólka sem talinn er einn af landnámsmönnum mun hafa gert út frá Hafnabúðum en þær draga nafn sitt af bænum Höfnum.
Í Þjóðsagnarsafni Jóns Árnasonar er sagt svo frá Hafnabúðum.

„Alltítt var að menn úr sveitum gerðu sig út til sjóróðra á Hafnabúðum haust og vor því þar var jafnan aflasælt þá sem nú; enda má sjá þar mörg búðastæði forn.“


Feykir hafði samband við Guðmund Stefán Sigurðsson, minjavörð Norðurlands vestra og forvitnaðist um minjafundinn.

„Þetta er semsagt í landi Hafna, þar var stór verstöð, sennilega frá landnámi og fram eftir öllum öldum. Það eru verbúðir þarna eftir ströndinni allri meira og minna, í landi Hafna. Þarna er sjórinn að brjóta mikið af og búnar að verða miklar skemmdir á þessum minjum í gegnum árin og núna er þarna opinn gamall öskuhaugur með fiskibeinum og dýrabeinum sem er að brotna þarna í sjó og einhverjar mannvirkjaleifar líka.“


Í þessum haug er hægt að sjá gjóskulög sem gefa vísbendingu um aldur minjanna og við fyrstu sýn virðast einhverjar leifar vera undir gjósku frá 1104, en það ár gaus Hekla en talið er að 2,5 rúmkílómetrar af gjósku hafi komið úr fjallinu og fallið víðsvegar um land allt, Þjórsárdalur lagðist t.d. í eyði sökum gjóskufallsins. Guðmundur telur einnig að þarna séu mannvistarleifar á milli 1104 og líklega 1300 og eftir það.


Minjastofnun hefur tekið nokkra gripi, sem fundust í haugnum, til skoðunar.

„Þetta eru bein og mögulega tennur, við erum svosem ekki búin að hafa tíma til að láta skoða þetta, þetta er bara nýkomið inn. Það er hugsanlegt að eitt af þessu sé allavega rostungstönn og það eru einhver mannaverk á þessu, búið að sníða þetta eitthvað til og móta, þetta hefur þjónað einhverjum tilgangi, verið verkfæri af einhverju tagi eða eitthvað slíkt.


Sökum náttúruafla eru minjarnar í stöðugri hættu á að útrýmast og því þarf að hafa hraðar hendur til að þær minjar og heimildir sem haugurinn geymir, varðveitist og verði til gagns.

„Þetta er náttúrulega bara eitthvað sem við þurfum núna í framhaldinu að skoða hvað við getum gert til þess að reyna að bjarga allavega sem mestum upplýsingum, það er óvíst að það verði hægt að verja þetta en það má reyna að ná í þær upplýsingar sem hægt er að ná í þarna. Þetta er allt í skoðun hvað verður gert og í hvaða ferli allt þetta fer, þetta er allt á algjöru frumstigi.

Þetta er auðvitað bara eitthvað sem við erum að missa frá okkur og gerist býsna hratt ef að sjávarstaða er há og það er sterk norðanátt, þá fer mikið og oft bara í einu veðri geta tapast kannski einhverjir metrar af svona mannvistarleifum, og þar með allar upplýsingar um þær, gripir og annað slíkt,“ segir Guðmundur.


Minjastofnun er að skipuleggja nánari rannsókn á svæðinu í næstu viku og er meiningin að mæla upp sjávarbakkana framan við minjarnar og bera saman við síðustu mælingar sem Byggðasafn Skagfirðinga gerði árið 2008, þegar allar fornleifar á jörðinni voru skráðar. Þá munu starfsmenn Minjastofnunar einnig hreinsa og teikna upp sniðið sem komið er í öskuhauginn og sigta það sem fallið hefur fram. Í framhaldinu verður metið til hvaða frekari ráðstafana er hægt að grípa til verndar minjum á svæðinu.

/SMH

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir