Málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra fær rúma eina og hálfa milljón af 400 milljóna viðbótarframlagi Jöfnunarsjóðs
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur samþykkt tillögu ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga frá 10. desember sl. um úthlutun sérstaks viðbótarframlags á árinu 2021 vegna þjónustu við fatlað fólk. Nemur upphæð framlagsins 400 milljónum króna. Sveitarfélagið Skagafjörður fær rúma eina og hálfa milljón kr. í málefnið fyrir Norðurland vestra.
Á vef stjórnarráðsins kemur fram að á grundvelli 2. gr. reglugerðar nr. 1291/2021 um framlög Jöfnunarsjóðs vegna þjónustu við fatlað fólk á árinu 2021 er heimilt að veita sérstök viðbótarframlög til þeirra þjónustusvæða þar sem kostnaður við reksturinn er verulega íþyngjandi. Í greiðslu- og rekstraráætlun sjóðsins 2021 er gert ráð fyrir að viðbótarframlög á árinu geti numið allt að 400 m.kr.
Útreikningur á skiptingu framlagsins byggist á rekstrarniðurstöðu þjónustusvæða á árinu 2020 en starfshópur um greiningu á kostnaðarþróun í þjónustu við fatlað fólk, skipaður af félags- og barnamálaráðherra í apríl 2021, hefur lagt mikla vinnu í að afla og samræma þau gögn.
Feykir hefur flutt fréttir af því að sveitarfélögin á Norðurlandi vestra hafa miklar áhyggjur af auknum rekstrarkostnaðar við málaflokkinn sem tilkominn er vegna m.a. vegna styttingar vinnutíma hjá vaktavinnufólki, samkvæmt því sem fram kemur í bókun byggðarráðs Skagafjarðar 17. nóvember sl., en einnig vegna þess að framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga dragast saman um tæplega 120 m.kr. á milli ársins 2020 og þeirrar áætlunar sjóðsins sem liggur fyrir varðandi árið 2021. „Að óbreyttu vex kostnaður vegna viðbótarframlaga sveitarfélaga á Norðurlandi vestra sem þau þurfa að leggja til með málaflokknum umfram það útsvarshlutfall sem ætlað er að standa undir rekstri hans, því um 450% á milli áranna 2020 og 2021 og ber Sveitarfélagið Skagafjörður mestan þunga aukningarinnar, bæði hlutfallslega og eins hvað hreina fjárupphæð varðar,“ segir í bókuninni.
Ljóst er að sú fjárhæð sem nú kemur frá hinu opinbera segir lítið í stóra samhenginu.
„Það er rétt að við erum að fá 1,5 mkr. til okkar og segir það lítið, en þetta er betra en ekkert. Að auki fær sveitarfélagið framlag að fjárhæð 26,8 mkr. vegna notendastýrðrar persónulegrar þjónustu (NPA). Í fjárhagsáætlun ársins 2021 er gert ráð fyrir að sveitarfélögin á Norðurlandi vestra, sem standa að þjónustu við fatlað fólk á svæðinu, muni greiða rúmar 200 milljónir króna umfram samningsbundið framlag með verkefninu. Árin á undan þ.e.a.s. 2016-2020 var meðgjöfin samtals 202 milljónir króna,“ segir Margeir Friðriksson, sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs Svf. Skagafjarðar.
Hann bendir á að í fjárhagsáætlun ársins 2022 sé reiknað með því að sveitarfélögin þurfi að bera hallarekstur upp á 279 milljónir króna vegna skerts framlags Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til verkefnisins.
„Þetta er mjög íþyngjandi og má segja að þessi baggi sé helsta ástæða hallareksturs A hluta sveitarfélaganna í ár og næsta árs. Við teljum að þjónustan á þjónustusvæðinu sé góð og vísa ég til bókunar byggðarráðs frá 17. nóvember. Það er erfitt að breyta miklu í málaflokknum því verkefnið er þannig að launakostnaður er aðal útgjaldaliðurinn og það er ekki hægt að breyta neinu þar.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.