Magnaður árangur keppenda UMSS og USAH á Stórmóti ÍR

Valdimar Logi Guðmannsson USAH sigurvegari í þrístökki 13 ára pilta en honum á hægri hönd er Freyr Ingvarsson KR sem lenti í þriðja sæti og á vinstri hönd Hafþór Ingi Brynjólfsson UMSS sem landaði bronsinu. Mynd af FB-síðu frjálsíþróttadeildar Hvatar.
Valdimar Logi Guðmannsson USAH sigurvegari í þrístökki 13 ára pilta en honum á hægri hönd er Freyr Ingvarsson KR sem lenti í þriðja sæti og á vinstri hönd Hafþór Ingi Brynjólfsson UMSS sem landaði bronsinu. Mynd af FB-síðu frjálsíþróttadeildar Hvatar.

Stórmót ÍR fór fram í Laugardalshöll um helgina, það 26. í röðinni, og var fjölmennt líkt og áður en yfir 500 keppendur frá 28 félögum voru skráðir til keppni. Keppt var í fjölþraut barna 10 ára og yngri og í hefðbundnum greinum í öllum aldursflokkum 11 ára og eldri. Fjölmargir keppendur frá UMSS og USAH tóku þátt og tólf þeirra náðu á verðlaunapall.

Það má með sanni segja að hinn 11 ára gamli íþróttamaður frá Sauðárkróki Guðni Bent Helgason hafi komið séð og sigrað því hann sigraði í öllum þeim greinum sem hann tók þátt í en hann keppir undir merkjum UMSS. Í kúluvarpi kastaði hann 8,73 m, sveif 4,1 metra í langstökki og 1,42 metra í hástökki, hljóp 60 metrana á 9,03 sekúndum og 600 metrana á 1:53,34 mínútum og stóð uppi sem sigurvegari í Fimmtarþraut með 4874 stig. Vel gert.

Félagarnir Aron Gabríel Samúelsson og Ísak Hrafn Jóhannsson, einnig í UMSS, röðuðu sér í 2. og 3. sætið í fimmtarþraut pilta 12 ára en Aron endaði í öðru sæti í þremur greinum, í langstökki 4,23 m, hljóp 60 metrana á 9,07 sekúndum og 1:54,46 mínútum í 600 metra hlaupi.

Ísak Hrafn var einnig öflugur en hann náði fyrsta sætinu í 600 metra hlaupinu á tímanum 1:54,20 og tvisvar steig hann á pall til að taka við bronsinu, annars vegar í 60 metra hlaupi með tímann 9,17 sek og í fimmtarþrautinni eins og áður segir.

Í 600 metra hlaupi 13 ára pilta landaði Friðrik Logi Haukstein Knútsson bronsverðlaunum er hann rann brautina á 2:02,32 mínútum.

Hafþór Ingi Brynjólfsson sté tvisvar á pall í 13 ára hópnum en sín hver bronsverðlaunin hlaut hann að launum fyrir þrístökk upp á 7,93 metra og 200 m hlaup, 31,54 sekúndu.

Öflugir Húnvetningar

Húnvetningar voru einnig öflugir en sjö náðu sér í medalíur á mótinu undir merkjum USAH. Valdimar Logi Guðmannsson var atkvæðamestur þeirra en hann gerði sér lítið fyrir og krækti í þrenn gullverðlaun og þrenn silfur. Gullið fékk hann fyrir stökkgreinarnar; hástökk 1,53 m, langstökk 4,99 m og þrístökk pilta 8,90. Annað sætið var hans í 60 metra hlaupi þar sem hann skeiðaði brautina á 8,32 sekúndum, 200 metrana á 28,27 og kúlunni varpaði hann 8,41 metra.

Þá náði Adam Nökkvi Ingvarsson þriðja sætinu í þrístökk pilta 14 ára með stökk upp á 8,83 metra.

Lárey Mara V. Sigurðardóttir 12 ára gerði einnig gott mót en hún vann sér inn ein silfurverðlaun þegar hún kastaði kúlu 8,04 metra og þrenn bronsverðlaun; í hástökki þegar hún sveif yfir 1,22 metra og 3,76 metra í langstökki. Árangur Láreyjar skilaði henni bronsi í fimmtarþraut.

Harpa Katrín Sigurðardóttir náði einnig góðum árangri 14 ára stúlkna en hún sigraði í þrístökki með stökk upp á 9,41 metra, annað sætið var hennar í langstökki 4,69 m og að lokum hafnaði hún í þriðja sæti í 300 metra hlaupi á tímanum 47,80 sekúndur.

Þrjár stúlkur í viðbót nældu í bronsverðlaun þær Katrín Heiða Finnbogadóttir, 11 ára, í 60 metra hlaupi með tímann 10,18 sek. og jafnöldrurnar Arney Nadía Hrannarsdóttir sem varpaði kúlu 7,42 metra og Hrafney Lea Árnadóttir sem hljóp 600 metrana á 2:07,78 mínútum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir