Mælifell :: Torskilin bæjarnöfn
Nafnið er frá landnámstíð, og það er nefnt í Landnámabók: „Vékell enn hamrammi hét maðr, er land nam ofan frá Giljá til Mælifellsár, ok bjó at Mælifelli“ (Landn., bls. 140). Og um Kráku-Hreiðar er þess getið, að „hann kaus at deyja í Mælifell“ (Landn., bls. 141). Af þessari frásögn er það ljóst, að hnjúkmyndaða fjallið, sem bærinn stendur undir, hefir öndverðu heitið Mælifell. Á seinni öldum hefir það fengið nafnið Mælifellshnjúkur, sem reyndar á betur við, og nú er það að öllum nefnt því nafni.
Frásögn Landnámu bendir líka á það, að bærinn hefir dregið heiti af fellinu, sem landnámsmenn kölluðu Mælifell. Samnefni eru fá við þetta nafn. Mælifell í Aðaldal (sjá Dipl. Ísl. V.b., bls. 283 - nú í eyði?) og Mælifell á Snæfellsnesi (Dipl. VII. b., bls.5), fjall, en ekki bær? Auk þess er til Mælifell í Norðurárdal syðra - gamalt örnefni (sjá Dipl. Ísl. VII. b., bls. 64). Frá 16. öld má finna afbökunina Mælufell (í Skagafirði) (sjá Dipl. Ísl. VIII. b., bls. 767 og IX. b., bls. 604). En ýms skjöl frá eldri tímum hafa nafnið rjett, eins og Landnáma og Sturlunga, sem hefir það eins (með i). Þessar ástæður sýna þá, að nafnið er nú óafbakað og upprunalegt.
En það er jafntorskilið fyrir því. Það má þó óhætt telja víst, að forliður nafnsins, mæli, sje hljóðvarp af mál (i-hlv.). En eins og kunnugt er, hefir orðið mál (í frumnorrænu maðl og upprunalega úr gotnesku: maþl, sem þýðir: tunga), mjög margvíslegar merkingar í fornmáli. Meðal annars merkir það tíma, oft fastákveðinn. Sú merking er einmitt mjög algeng til forna. Í Hávamálum stendur:
„Mál es þylja
þularstóli á“
(111. er.), þ.e. tími til kominn. Sama kemur fram í Skírnismálum, 10. er.:
„Myrkt es úti
mál kveðk okr fara
úrig fjöll yfir - - -.“
Mörg dæmi þessu lík mætti benda á, en rúmsins vegna verður þetta að nægja. Leifar af þessari merkingu finnast meðal annars í alkunna talshættinum, að „komið sje mál til“ e-s. Ennfremur í eyktanöfnunum rismál, dagmál, og náttmál (sbr. Njálssögu, bls.303); alstaðar er merkingin ákveðinn tími. Og þetta er einmitt áherzluvert, því að í öllu norðurhjeraði Skagafjarðar er enn, og hefir verðið, svo lengi sem elztu menn muna, talið hádegi, þegar sól ber um Mælifell(shnjúk). Og úr miðju úthjeraði sjeð, lætur því afarnærri, að sól beri yfir hnjúkinn á rjettu hádegi. Þegar þess er gætt, að landnámsmenn urðu að leggja hádegiseyktarmarkið
til grundvallar fyrir öðrum, því að þá bar sól hæst, liggur það í hlutarins eðli, að þeir hafi orðið að ákvarða það fyrst. Og landnemar útsýslunnar hafa vafalaust sett hádegismát sitt á Mælifell. Ef til vill hefur fellið fengið nafn af þessu, af því að hádegiseyktin var mæld við það, og önnur eyktarmerki miðuð eftir því. Mjer finnst það líklegt. Og hver veit, nema orðið hádegismál hafi þekst í fornöld, þótt ekki hafi það í bækur komist. Á það benda áðurgreind eyktarnöfn. Og svo mikið vita menn, að ýms orð eru algerlega glötuð, sem vel hafa þekst fyrir þúsund árum, eða meira. Fróðlegt væri að vita, hvort þau Mælifellsörnefni, sem til eru annarsstaðar, eigi sjer nokkur munnmæli um eyktarmörk. En þau geta vel verið gleymd með öllu, þótt til hefðu verið.
Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.