LS sýnir Skilaboðaskjóðuna í Miðgarði :: Bifröst vonandi tilbúin fyrir árslok, segir Guðmundur Þór
Eins og Feykir sagði frá í síðasta blaði mun Leikfélag Sauðárkróks færa haustverkefnið sitt, Skilaboðaskjóðuna eftir Þorvald Þorsteinsson, upp á svið Menningarhússins Miðgarðs í Varmahlíð, en miklar framkvæmdir standa nú yfir í Bifröst sem vonir stóðu til að yrðu yfirstaðnar fyrir áætlaðan frumsýningardag.
Teikningar af endurbættri Bifröst
gerðar af STOÐ ehf.
Að sögn Guðmundar Þórs Guðmundssonar, umsjónarmanns eignasjóðs Skagafjarðar er þegar búið að setja upp lyftu fyrir hreyfihamlaða í Bifröst en nú sé verið að ganga frá, sparsla mála og setja upp brunakerfi og flóttaleiðir. Eldhúsið sem var á efri hæðinni fær nýtt hlutverk en þangað kemur lyftan upp og einnig verða þar salerni fyrir fatlaða.
„Einnig er verið að einangra suðurkofann, sem lítið var notaður, en þar verður hægt að koma fyrir fatahengjum og þvíumlíkt. Það mun rýmkast mikið þarna á efri hæðinni,“ segir Guðmundur Þór. „Svo eigum við eftir að athuga með ný sæti í salnum, sem mér finnst kominn tími á og vona að það gangi eftir,“ bætir hann við.
Hann segir að einnig sé verið að fara í það að taka upp allar hellur fyrir framan húsið og útbúa ramp fyrir hreyfihamlaða að aðalinngangi sem þýði að brjóta þurfi tröppur og útbúa nýjar. Aðspurður um verklok sagði hann ekki þora að spá en vonar að þau verði áður en árið er úti.
En hvað skyldi hafa tafið verkið?
„Þetta gekk illa í sumar þar sem ekki var hægt að fá nokkurn iðnaðarmann í þetta auk þess að við misstum tvo góða starfsmen sem hættu. Þetta hefur allt mikið dregist en við ætluðum að vera komin miklu lengra með þetta. Það er líka annað í þessu, slökkviliðið kom með miklar athugasemdir við húsið þar sem ekki er brunaviðvörunarkerfi og rafmagn þannig frá gengið að ekki þykir boðlegt vegna eldhættu. Þannig að það er líka verið að taka húsið í gegn brunatæknilega,“ segir Guðmundur.
Ákaflega vel tekið á móti okkur
Starfsmenn Tengils Birkir og Max unnu að
brunakerfi í Bifröst er Feykir leit við í gær. Mynd: PF.
Þrátt fyrir framkvæmdir í Bifröst náði Leikfélagið að æfa í húsinu en síðasta sunnudag fór fyrsta æfing fram í Miðgarði. Sigurlaug Dóra Ingimundardóttir, formaður, segir spennandi að breyta til.
„Þetta eru miklar breytingar þar sem við höfum alltaf verið í Bifröst en þetta er spennandi. Við lítum alla vega þannig á að í staðin fyrir að gera eitthvert vandamál úr þessu, að gera þetta spennandi og lausnarmiðað.“ Sigurlaug segir leikara hafa tekið þessu vel sem sýni hve flottur hópurinn sé sem stendur að þessu.
„Við erum að koma inn í Miðgarð þar sem er full dagskrá og hópa,r að hliðra til fyrir okkur svo við getum æft og sýnt. Það eru margir sem eru að koma til móts við okkur eins og kórarnir Heimir, Sóldís og Kammerkórinn, einnig Tónadans. Kristín Halla, húsvörður Miðgarðs, hefur aðstoðað okkur við að koma þessu öllu saman.“
Formaðurinn segir að nú sé þetta eins og söguþráðurinn í leikritinu að allir þurfa að leggjast á eitt og hjálpa til. „Það eru bara fjórar sýningar, þar sem salurinn í Miðgarði rúmar fleiri en Bifröst, og snýst um að fólk setji það í forgang að mæta í Varmahlíð.“
Leikstjóri Skilaboðaskjóðunnar er Pétur Guðjónsson en hann segir það hafa gengið vel að æfa í Miðgarði. „Á þessari stundu er ekki komin leikmynd en það er í vinnslu. Það var svolítið eins og hópurinn hafi verið að bíða eftir því að komast þangað, sem er mjög eðlilegt. Það má líka koma fram að það hefur verið ákaflega vel tekið á móti okkur í Miðgarði,“ segir Pétur sem líst ákaflega vel á það að sýna í Miðgarði.
Frumsýning verður miðvikudaginn 12. október klukkan 18, önnur sýning á sama tíma á föstudag og svo klukkan 14 laugar- og sunnudag. Miðapantanir í síma 849 9434.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.