Ný stjórn knattspyrnudeildar Tindastóls
Á framhaldsaðalfundi knattspyrnudeildar Tindastóls sem fram fór í gær var kjörin ný stjórn en erfiðlega hefur gengið sl. tvo aðalfundi að fá fólk til starfa. Þriggja manna stjórn hefur verið við lýði sl. tímabil en nú brá svo við að níu manns gáfu kost á sér í aðal og varastjórn. Siggi Donna næsti formaður.
Fyrir fundinn lá aðeins eitt mál og það var kosning stjórnar en ekki tókst að mynda nýja stjórn á aðalfundi sem haldinn var 4. febrúar þar sem fráfarandi stjórnarmenn gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi setu. Eftir að Þórhallur Rúnar Rúnarsson, formaður, hafði sett fund tók Guðlaugur Skúlason, formaður aðalstjórnar Tindastóls, til máls og lagði fyrir fundinn nafnalista fólks sem gaf kost á sér til stjórnarsetu. Gerði hann að tillögu sinni að það fólk yrði kosið til starfa og var það samþykkt einróma.
Sigurður Halldórsson, Siggi Donna, var kjörinn formaður, en aðrir stjórnarmenn Magnús Helgason, Svavar Viktorsson, Sunna Björk Atladóttir, Guðni Kristjánsson, Hjörtur Elefsen og Magnús Jóhannesson. Baldur Haraldsson og Guðný Axelsdóttir voru svo fengin til að vera stjórn til halds og trausts.
Fyrsti fundur stjórnar fer fram í dag og verður þá skipað í störf varaformanns, gjaldkera og ritara.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.