„Lífsins gæði og gleði“ skilar okkur brosandi inn í sumarið
Atvinnulífssýningin „Skagafjörður - lífsins gæði og gleði“ var haldinn í 3 skipti um nýliðna helgi. Þar gaf að líta hvað Skagafjörður hefur upp á að bjóða í margbreytilegu atvinnu- og mannlífi.
Gestir fengu að kynnast fjölbreyttri þjónustu, framleiðslu og menningu í héraðinu á glæsilegri sýningu. Af sjálfsögðu var hún fram borin með þeim blæbrigðum og tónaflóði sem hvergi er að finna viðlíka og í Skagafirði. Athygli vakti hvað margt nýtt bar fyrir augu og augljóst að mikið hefur gerst á þeim tveimur árum sem liðin eru frá síðustu sýningu. Þróunar- og frumkvöðlastarf er greinilega með miklum blóma í héraðinu.
Á annað hundrað aðilar tóku þátt í sýningunni
Á sýningunni voru vel á annað hundrað aðilar sem kynntu starf sitt og vörur í 61 bás. Boðið var upp á skemmtiatriði á sviði og ýmiskonar varningur og veitingar til reiðu á staðnum með öllum sínum Skagfirsku einkennum og sérstöðu. Margvísleg fyrirtæki, framleiðendur, ferðaþjónustuaðilar, félagasamtök, sveitarfélagið og stofnanir, kynntu starf sitt, þjónustu og vörur. Við fengum að kynnast því öfluga rannsókna og þróunarstarfi sem fer fram í Skagafirði og menntun á öllum skólastigum. Einnig var sérstök kynning á frumkvöðlum á NV sem atvinnuráðgjafar samtaka sveitarfélaga á NV (SSNV) hafa unnið með. Margt áhugavert bar þar fyrir augu.
Að leiða saman þá krafta og hugvit sem Skagafjörður hefur upp á að bjóða
Svona stór og viðamikil sýning krefst hinsvegar mikils og vandaðs undirbúnings og almenns áhuga á að taka þátt í slíku sameiginlegu verkefni, leiða saman þá krafta og hugvit sem Skagafjörður hefur upp á að bjóða, kynna það mannlíf sem hér fer fram. Það er ástæða til að þakka þeim fjölmörgu sem tóku höndum saman til að gera þessa glæsilegu sýningu að veruleika. Öllum þeim sem lögðu til hennar með þáttöku sinni, en ekki síst þeim sem á undanförnum vikum unnu að undirbúningi hennar, starfsfólki sveitarfélagsins, SSNV, þeim sem tóku þátt í sýningunni og öðrum. „Skagafjörður - Lífsins gæði og gleði 2014“ skilar okkur brosandi inn í sumarið.
Bjarni Jónsson
Form. Atvinnu,- menningar og kynningarnefndar
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.