Lið Varmahlíðarskóla í úrslit Skólahreysti
Lið Varmahlíðarskóla er komið áfram í úrslitakeppni Skólahreysti 2021 sem fer fram þann 29. maí næstkomandi. Liðið keppti í Norðurlandsriðli með skólum frá Akureyri og nágrenni þann 4. maí síðastliðin og endaði þar í öðru sæti með 49 stig, einu stigi á eftir Dalvíkurskóla.
Í Skólahreysti er keppt í sjö undanriðlum og fer sigurliðið í hverjum riðli í tólf liða úrslit ásamt fimm liðum með bestan árangur í öðru eða lægra sæti. Þegar riðlunum sjö lauk nú á dögunum kom í ljós að Varmahlíðarskóli hefur unnið sér inn sæti í úrslitum Skólahreysti sökum góðs árangurs í öðru sæti. Þetta er fimmta árið í röð sem Varmahlíðarskóli tryggir sér sæti í úrslitunum.
Lið Varmahlíðarskóla skipa; Arndís Katla Óskarsdóttir, Herdís Lilja Valdimarsdóttir, Ísak Agnarsson, Kristinn Már Eyþórsson og til vara eru Hákon Kolka Gíslason og Lydía Einarsdóttir. Þessi hópur er undir dyggri leiðsögn Sigurlínu Einarsdóttur, íþróttakennara við Varmahlíðarskóla.
Það verður spennandi að fylgjast með liði Varmahlíðarskóla í úrslitunum en áður hafði lið Grunnskólans austan Vatna tryggt sér farseðil í úrslitin með sigri í sínum riðli. Sýnt verður beint frá úrslitunum þann 29. maí á RÚV klukkan 19:45.
/SMH
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.