Lið Tindastóls flörtar við fjörðu deildina
Síðastliðinn laugardag skunduðu liðsmenn Tindastóls austur á Hérað þar sem þeir hittu fyrir topplið Hattar/Hugins í 12. umferð 3. deildar á Villa Park. Ekki þurftu Stólarnir að óttast það að vera stöðvaðir vegna öxulþunga fararskjótans því aðeins 14 kappar héldu austur að meðtöldum þjálfara en aðstoðarþjálfarar liðsins voru báðir í hóp. Mörk frá heimamönnum í sitt hvorum hálfleik dugðu til 2-0 sigurs og tryggði stöðu þeirra á toppi deildarinnar en tapið sendi Tindastólsmenn í fallsæti.
Arnar Eide Garðarsson gerði fyrra markið á 17. mínútu en síðustu 20 mínútur fyrri hálfleiks fengu fimm leikmenn að líta gula spjaldið hjá dómara leiksins. Þar á meðal þrír Stólar; Hólmar Daði, Jónas Aron og Konni. Arnar bætti við öðru marki Hattar/Hugins á annarri mínútu síðari hálfleiks og örfáum mínútum síðar fékk Hólmar að líta gula spjaldið öðru sinni og þar með lauk þátttöku hans að þessu sinni og brekkan orðin ansi brött hjá gestunum. Ekkert var skorað það sem eftir lifði leiks.
Staða Tindastóls er nú orðin ansi slæm en liðið er nú næstneðst með tíu stig eftir tólf leiki. Það er þó nóg eftir af mótinu og tími til að snúa genginu við. Það segir sig auðvitað sjálft að það er ekki boðlegt að senda 12 manna hóp austur til að spila við toppliðið og hvað þá á miðju sumri.
Haukur þjálfari Skúla tjáði Feyki að meiðsli væru að hrjá leikmenn en að auki hafi veikindi herjað á nokkra leikmenn. Aðspurður um hvort úrslitin hafi verið sanngjörn segir hann: „Við hálfpartinn gefum þennan leik frá okkur, gefum þeim bæði mörk þeirra á silfurfati og missum svo mann af velli sem gerði hlutina enn erfiðari fyrir okkur. Úti á velli er spilið í fínu lagi lengstum og við sköpuðum okkur nokkur ágæt færi.“ Haukur segir að vonir standi til þess að það náist að styrkja hópinn á næstu dögum en það ætti að koma betur í ljós nú í vikunni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.