Lið Hamars/Þórs með öruggan sigur á Stólastúlkum
Eftir fínan sigur á liði Snæfells á dögunum komu Stólastúlkur niður á jörðina þegar þær mættu liði Hamars/Þórs í Hveragerði í gær. Eftir fína byrjun Tindastóls náðu heimastúlkur undirtökunum í leiknum, bættu smám saman við forskotið og fór svo að lokum að þær höfðu 19 stiga sigur. Lokatölur 90-71.
Eftir að hafa lent 5-2 undir þá náðu Stólastúlkur góðum kafla og breyttu stöðunni í 6-14 þegar rúmar fjórar mínútur voru liðnar. Þá fór að ganga verr í sókninni og sunnanstúlkur snéru dæminu við og voru yfir, 26-21, að loknum fyrsta leikhluta. Gestirnir minnkuðu muninn í byrjun annars leikhluta og munurinn yfirleitt eitt til sex stig. Munurinn var fjögur stig þegar þrjár mínútur voru í hálfleik en síðustu sjö stig leikhlutans voru heimastúlkna og þær leiddu því með ellefu stigum þegar gengið var til búningsklefa. Staðan 48-37.
Snemma í síðari hálfleik hafði lið Hamars/Þórs breikkað bilið í átján stig, 55-37, og þá voru nú möguleikar Stólastúlkna að mestu úr sögunni. Þær náðu nokkrum áhlaupum en þau voru of stutt og skiluðu ekki nógu miklu. Staðan var 70-56 fyrir lokakaflann og enn bættu heimastúlkur í forskotið, náðu mest 21 stigs forystu, 88-67, og unnu því öruggan sigur.
Jayla Johnson var langstigahæst með 44 stig, hátt í 2/3 stiga Tindastóls og gerði sömuleiðis eina þrist Tindastóls í leiknum! Þá tók Jayla níu fráköst. Emese Vida gerði átján stig og tók 12 fráköst, Eva var með fimm stig, öll af vítalínunni, og Ingigerður og Inga Sólveig gerðu tvö stig hvor. Þá er það nú upptalið. Jenna Mastellone gerði 33 stig fyrir Hamar/Þór en heimastúlkurnar Emma Hrönn og Hildur Björk gerðu 30 stig sín á milli. Fjórir leikmenn heimastúlkna tóku tíu fráköst eða meira.
Nú þegar fjórar umferðir eru eftir af 24 umferðum þá er lið Tindastóls með átta stig og næstneðst í 1. deildinni. Efst er lið Þórs Akureyri með 34 stig eftir 21 leik en Stjarnan á tvö leiki til góða og er með 32 stig. Næsti leikur Stólastúlkna er nú á laugardaginn kl. 19:15 þegar sameinað lið Aþenu/Leiknis/UMFK mætir í Síkið en það er sæti ofar en lið Tindastóls, með 14 stig.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.