Létt og laggott eftir hátíðirnar

Eftir að hafa hreinlega legið í því um jól og áramót heitum við ætíð að á nýju ári skulum við taka upp nýtt og léttara mataræði. Borða bara holt og gott og sneiða hjá allri óhollustu. Feykir safnaði saman nokkrum laufléttum uppskriftum á nýju ári 2007.

Couscous salat

250 g couscous
1 dós niðursoðnar vatnsheslihnetur
1/2 krukka niðursoðnar kjúklingabaunir
1/2 rauðlaukur
1 appelsína, flysjuð og skorin í bita
væn lúka af ferskri sítrónubasilíku 

Sjóðið couscous eftir leiðbeiningum á pakka, látið kólna. Blandið restinni af hráefnum saman við.

 

Uppáhald Jóns frænda
(fyrir 4)

1 pakki couscous með sólþurrkuðum tómötum
1 paprika
5 vænir  sveppir
1 rauðlaukur
4 kjúklingabringur (eða annar kjúklingur) 

Sjóðið couscous eftir leiðbeiningum á pakka. Steikið kjúkling á pönnu og kryddið með maldonsalti og góðri ítalskri kryddblöndu. Þegar kjúklingurinn er steiktur bætið þið grænmetinu við og að lokum er soðnu couscous bætt á pönnuna. Berið fram með góðu brauði.

Lax með appelsínu couscous-hjúp
(fyrir 4) 

4 laxasteikur, ca. 180 g hver
50 g couscous
6 msk sjóðandi vatn
fínrifinn börkur og safi úr einni appelsínu
1 msk dijon sinnep
eitthvað gott kryddjurtakrydd frá Pottagöldrum.

Hellið sjóðandi vatninu yfir couscousið og látið standa í nokkrar mínútur. Blandið appelsínuberkinum, sinnepinu og kryddinu saman við couscousið. Setjið laxinn í eldfast mót og couscousið yfir. Hellið appelsínusafanum í kring og steikið við 200 gráður í ca. 20 mínútur. Berið fram með góðu salati og ef til vill appelsínusósu.

 

Salat með avókadó og steinselju
Lambhagasalat

1 avókadó
appelsínusafi
smátt saxaður rauðlaukur
balsamik edik
söxuð steinselja 

Setjið saman að vild og berið fram með laxinum. Ef vilji er til þess að bera fram sósu með laxinum ætti hún að vera akkúrat svona:

 

Appelsínusósa 

safi úr tveimur appelsínum
1 msk vatn
50 g smjör 

Setjið appelsínusafann í pott og látið sjóða þangað til hann hefur gufað upp um 1/3. Setjið þá vatnið út í ásamt smjörinu og hrærið vel. Kryddið með salti og pipar. 

 

Ferskur drykkur í stað gosdrykkja

1 flaska eplacider
2 ferskjur
1/2 mangó
nokkur jarðaber 

Skerið ávextina í bita og setjið út í ciderinn. Gott er að gera þetta í tíma og geyma í ískáp. Berið fram ískalt og gjarnan með klökum.

  

Hindberja skyrdrykkur 

200 g vanilluskyr
1/2 banani
1 dl frosin hindber
100 ml undanrenna
ísmolar

Setja allt í blandara og þeytið í 30 sek.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir