„Lengst af voru engar græjur til heima“ / ÞORGEIR TRYGGVA
Sá er svarar Tón-lystinni að þessu sinni er kannski best þekktur fyrir að smyrja bókmenntaáhuga þjóðarinnar með smitandi lestrargleði í Kiljuþáttum Egils Helgasonar. Það er Þingeyingurinn Þorgeir Tryggvason, býr í reykvísku póstnúmeri, sem tókst að heilla Skagfirðinga á dögunum með því að gangast við því að geta rekið ættir sínar í Skagafjörðinn þegar hann var að tjá sig um nýjustu bók Kristmundar Bjarnasonar frá Sjávarborg.
„Ég fæddist á Siglufirði [1968] en ólst upp á Húsavík,“ segir Þorgeir. „Skagfirskar rætur mínar eru ekki sérlega djúpar, en langafi minn var séra Tryggvi Kvaran og hann og langamma mín, Anna Thorarensen, bjuggu á Mælifelli og þar fæddist Hjördís föðuramma mín og ólst upp.“ Spurður um hvaða hljóðfæri hann leiki á segir hann: „Upphaflega gítar, en um árþúsundamótin var krónan í slíkum hæðum að ég keypti mér fagott og óbó á Ebay upp á von og óvon og tvíblöðungarnir hafa verið mín helstu hljóðfæri síðan. Samt er nú mest gaman að tromma.“
Þorgeir er einn af liðsmönnum hinna sívinsælu Ljótu hálfvita sem kenndir eru við Húsavík en hann kemur ansi víða við í sinni listsköpun, syngur meira að segjaa í kór og átti síðan eftirminnilega heimsókn í stofur landsmanna í Ófærð 2 svo tæpt sé á einhverju. En vindum okkur í spurningarnar.
Hvaða lag varstu að hlusta á? „Love and Hard Times með Paul Simon er undir Spotify-nálinni.“
Hver er helstu tónlistarafrek þín? „Uss, svona má ekki spyrja skagfirskan þingeying! Ég er ansi stoltur af mörgu. Hef samið slatta af lögum sem ég er ánægður með, þar á meðal barnalag í 5/4. Svo finnst mér gaman að vera búinn að vera í hljómsveit í rúman áratug með óbreyttum mannskap, fimm plötur og sú sjötta í smíðum. Montnastur hef ég samt orðið þegar mér tókst í fyrsta sinn að skila af mér nothæfri trommutöku. Það var á fyrstu plötu Hálfvitanna og gekk alls ekki þrautalaust.“
Uppáhalds tónlistartímabil? „Í poppi: áttundi áratugurinn. Hart rokk, smá progg, Megas, Spilverkið, Queen. Og svo pönkið í lokin. Í klassík: Barrokk. Bach, Handel og félagar.“
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? „Hvað varðar popp og rokk þá hefur ákaflega fátt bæst við á uppáhaldslistann síðan í menntaskóla. Frekar að smekkurinn hafi grisjast. Hinsvegar er klassíkin alltaf að nema ný lönd í mér. Nú síðast amerískur mínímalismi; Steve Reich, Morton Feldman og svoleiðis menn.“
Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? „Lengst af voru engar græjur til heima. Gamall plötuspilari gaf upp öndina þegar ég var smákrakki og sá næsti kom þegar ég fermdist. Í millitíðinni var til kassettutæki og úr því hljómaði mest það sem ég vildi heyra þá: pönk og þungarokk.“
Hver var fyrsta platan/diskurinn/kassettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? „Annað hvort Heaven and Hell með Black Sabbath eða Unmasked með Kiss. Kassettur.“
Hvaða græjur varstu þá með? „Þokkalegan Gettóblaster. Man ekki tegundina.“
Hver var fyrsta lagið sem þú mannst eftir að hafa fílað í botn? „Dirrindí með Þremur á palli. Sérstaklega þegar Troels sagði „andskotans“. Löngu seinna samdi ég lagið Þegiðu Lóa! sem nokkurskonar svar við þessum texta Jónasar, og ljóði Þorsteins Erlingssonar um þennan afskiptasama og freka fugl.“
Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn?„Ekkert lag held ég. Þær tegundir eða stefnur sem ég helst sniðgeng eru virtúósadjass, léttklassík, dívu-R&B, rythmablús, techno, flamenco og fado. Svo hef ég verið að reyna að venja mig við rapptónlist og hef ekki enn játað mig sigraðan og slökkt. Stendur tæpt samt.“
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? „Queen og Dukes of Stratosphear.“
Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? „Sellósvítur Bachs.“
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? „Það yrði að vera Tom Waits, hann er bestur. Í París, af því hún er best. Og eiginkonan, Hulda B. Hákonardóttir, kæmi með, af því hún er best.“
Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? „1986. Það þýðir Rain Dogs með Tom Waits, Ísland með Spilverki þjóðanna og Abbey Road.“
Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? „Kristján Hjartarson, trúbadúr frá Tjörn í Svarfaðardal.“
Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út (eða sú sem skiptir þig mestu máli)? „Ógjörningur að svara þessu! Segjum samt Abbey Road til að segja eitthvað.“
Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? Spotify segir að þetta séu sex mest spiluðu lögin á síðasta ári:
It won’t be long – The Beatles
Geimvísindi – Hildur Vala
Symphonie sacrae op. 6 no. 14 – Schütz
Hafsteinn hugumstóri – Börn síns tíma
The Warewolf – Paul Simon
Trio sonatas ZWV 181 – Zelenka
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.