Lekaleit hitaveitu með ómönnuðum loftförum fyrir RARIK
Á komandi vikum munu starfsmenn frá umhverfisverkfræðistofunni ReSource International gera lekaleit á hitaveitu innan Blönduóss fyrir hönd RARIK. Leitin verður gerð með ómönnuðum loftförum (öðru nafni drónum) þar sem teknar verða hitamyndir úr +50 m hæð af bænum vegna mögulegra leka á hitaveitulögnum.
Gögnin munu nýtast RARIK til að stöðva núverandi leka ásamt því að varpa ljósi á mögulegar viðhaldsþarfir. Á heimasíðu Blönduóssbæjar kemur fram að áætlað sé að lekaleitin taki tvo daga og myndirnar verði teknar með hitamyndavél og úr þó nokkurri hæð svo ekki sé hægt að greina neina persónugreinanlega hluti á þeim.
Lekaleitin er áætluð á komandi vikum þegar veður leyfir, þegar vindur er hægur og engin úrkoma er í spákortum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.