Lausnin á afnámi verðtryggingarinnar á húsnæðis og neyslulánum
Mér finnst stundum erfitt að hlusta á og lesa stjórnmálamenn og fréttaskýrendur fjalla um verðtrygginguna. Talað er um að afnám hennar muni valda gjaldþroti bankanna, Íbúðarlánasjóðs, LÍN, lífeyrissjóðanna og hvaðeina, sem væri auðvitað skelfilegt og því megi ekki hrófla við henni. En ég hefði e.t.v. frekar átt að segja að hlusta á það, sem ekki er sagt, því mér virðist ljóst að fáir hafi enn nokkra minnstu hugmynd um hvernig á að leysa málið fyrir þjóðina, blessað fólkið, en líka fyrir lánardrottnana.
Lestu þetta þín vegna
Guðmundur Franklín Jónsson, formaður Hægri grænna, flokks fólksins, hefur margskrifað um þetta í blöðin. Undirritaður hefur sömuleiðis gert það og allt um þetta hefur líka mátt lengi lesa á xg.is. Vegna þess hve málið er mikilvægt, þá ætla ég enn einu sinni að fjalla hér um málið í þeirri von að a.m.k. kjósendur lesi og kynni sér það.
Markaðslausnin
Bandaríkjamenn, sem oft eru snjallir, fóru ákveðna leið í að leysa skuldamál heimilanna og vanda íbúðarlánasjóða þar í landi, þannig að aðferðin er prófuð og þrautreynd og náði þeim árangri, sem að var stefnt. Hér er því ekki verið að reyna að finna upp hjólið á ný, né er um sjónhverfingar eða galdra að ræða.
Bandaríkjamenn komu á fót kerfi, sem þeir nefndu TARP (e. Troubled Asset Relief Program). Ef við heimfærum hana upp á Ísland, þá mundi eftirfarandi eiga sér stað: Sett yrðu tafarlaust á neyðarlög þar sem verðtryggð húsnæðis og neyslulán, þ.m.t. námslán, yrði færð í 278,1 stig, sem að var vísitala neysluverðs til verðtryggingar þann 1. nóvember, 2007, þegar MiFID (e. Markets in Financial Instruments Directive) tilskipun EES var lögleidd, en það mundi þýða um 44% lækkun höfuðstóls ef þetta yrði gert núna, þegar þetta er skrifað. Þau lán, sem tekin voru eftir þann tíma, yrðu svo færð til þeirrar vísitölu, sem að gilti þegar lánin voru tekin. Samhliða yrði stofnaður Afskriftarsjóður verðtryggðra húsnæðis og neyslulána (AVHN), sem innkallaði og keypti öll þessi verðtryggðu skuldabréf og skuldbreytti þeim. AVHN yrði í vörslu Seðlabankans, sem greiddi lánardrottnunum út gömlu skuldabréfin, sem að fengju þá strax allt sitt að fullu og ekkert útlánatap vegna þessa yrði því þar um að ræða. Síðan yrði lántökum boðin ný leiðrétt óverðtryggð skuldabréf til langs tíma til að létta á greiðslubyrðinni eða e.t.v. til allt að 75 ára á t.d. 7-8% föstum vöxtum. AVHN innheimti svo nýju bréfin, en samkvæmt útreikningum tekur það sjóðinn aðeins 8-10 ár að ná jafnvægi með þessum vöxtum eða vaxtamuninum, en Seðlabankinn lánaði sjóðnum á 0,01% vöxtum og eftir það færi sjóðurinn í hagnað, sem gengi til ríkissjóðs. Möguleiki væri auðvitað á að lækka vextina eftir að sjóðurinn er kominn í hagnað. Það sem er svo athyglisvert við þessa aðferð er að þetta er markaðslausn, sem þýðir t.d. að ríkissjóður þarf ekki að leggja neitt fé fram.
Magnbundin íhlutun
Þetta er magnbundin íhlutun (e. Quantitative easing) og er stjórntæki, sem seðlabankar nota til þess að auka peningamagn í umferð. Þetta stjórntæki geta seðlabankar gripið til þegar vaxtalækkanir og peningastefnur bankanna virka ekki lengur sem skyldi. Með magnbundinni íhlutun getur Seðlabanki Íslands t.d. sett í gang aðgerð um uppkaup á sértækum fjármálaafurðum frá bönkum og lánastofnunum eins og t.d. verðtryggðum skuldabréfum heimilanna og greitt fyrir með nýju reiðufé. Með þessu geta seðlabankar sett inn í hagkerfið fyrirfram ákveðna upphæð. Þessi aðferð var notuð af Seðlabanka Bandaríkjanna eftir hrunið 2008 til þess að laga efnahagslífið og bjargaði þessi aðgerð m.a. Fannie Mae og Freddie Mac, báðum stóru húsnæðislánasjóðum Bandaríkjanna. Magnbundin íhlutun er lykillinn að lausn á skuldavanda heimilanna og þeirra, sem eru með vísitölutengd neytendalán.
Lausn sem gengur upp
Þetta er lausn á mjög stórum og sársaukafullum vanda. Það er mjög gott og blessað að nokkrir vitrari en aðrir ætli sér að fara í rándýr dómsmál til þess að fá það frekar staðfest að verðtryggingin á svona lánum sé ólögleg, en hvað svo? Eins og áður sagði að þá er engin betri lausn til en sú, sem gengur upp fyrir alla. Aukaafurðir vegna þessarar lausnar yrðu svo væntanlega þær að húsaleigu og húsnæðismarkaðirnir fengju nýtt líf, kraftar leystust úr læðingi og efnahagskerfið færi af stað.
Kjartan Örn Kjartansson
Höfundur er fyrrv. forstjóri
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.