Laufskálaréttarhelgi framundan í allri sinni dýrð

Eftir tveggja ára Covid-hlé er loksins hægt að gleðjast saman á ný á Laufskálaréttarhelgi sem fer fram um helgina. Mikið húllumhæ verður þá í Skagafirði, hestasýning, réttarstörf, kráarstemning og stórdansleikur svo eitthvað sé nefnt.

Fjörið hefst klukkan 20:30 á föstudagskvöldið í reiðhöllinni á Sauðárkróki þar sem hestar, gleði, söngur og glaðlyndir gestir verða í fyrirrúmi, eins og segir í auglýsingu. Þau sem ekki langar í höllina geta gert sér dagamun á Hótel Varmahlíð þar sem boðið er upp á veitingar og réttarpartý föstudags- og laugardagskvöld.

Rekstrarstörf fara svo fram á laugardagsmorgun og hefjast upp úr hálftólf frá afréttarhliðinu við Unastaði í Kolbeinsdal. Þátttakendum við stóðreksturinn er bent á að lagt verður af stað frá áningarhólfi hestamanna við Sleitustaði og frá Laufskálarétt hálftíma fyrr. Réttarstörf hefjast svo klukkan 13.

Um kvöldið geta svo dansþyrstir mætt í reiðhöllina á Sauðárkróki þar sem stærsta sveitaball norðan heiða fer fram um kvöldið en þar munu stíga á stokk feikna kanónur í bransanum. Sjá nánar HÉR.

Veðurstofa Íslands spáir fínu veðri, 14 stiga hita og vætu á laugardag með smá gjólu af suðri og Norðmaðurinn er sammála á yr.no svo það er engu að kvíða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir