Landsliðsmaðurinn Sigtryggur Arnar til liðs við Tindastól
Lið Tindastóls heldur áfram að stykja sig fyrir körfuboltaveturinn næsta því nú rétt í þessu barst Feyki tilkynning frá körfuknattleiksdeild Tindastóls þar sem sagt er frá því að samið hafi verið við Sigtrygg Arnar Björnsson fyrir örfáum mínútum um að spila heima í Skagafirði næsta tímabil. Það eru sannarlega ánægjuleg tíðindi og ljóst að Stólarnir ætla sér aftur í toppbaráttuna því auk Arnars hefur Sigurður Þorsteinsson þegar samið við lið Tindastól.
Í tilkynningunni segir: „Stjórn Körfuknattleiksdeildar Tindastóls lýsir yfir mikilli ánægju með að hafa náð að semja við Sigtrygg Arnar Björnsson um að leika með liðinu næsta tímabil 2021-2022 ... Sigtryggur Arnar verður mikill styrkur fyrir félagið og sérstaklega fyrir íslenskan kjarna liðsins. Við bjóðum Sigtrygg Arnar velkominn í Skagafjörðinn.“
Arnar, sem er Skagfirðingur í húð og hár, hefur áður leikið með liði Tindastóls, síðast veturinn 2017-2018 sem sennilega var besta keppnistímabilið í sögu körfuboltans á Króknum en lið Tindastóls varð bikarmeistari það tímabil. Arnar var þá einn af lykilmönnum liðsins. Eftir það tímabil skipti Arnar yfir í Grindavík og nú í vetur hefur hann leikið á Spáni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.