Kysst'ana á Hvammstanga
Í vetur hefur 15 nemenda hópur í áfanganum Hljómlist, sem er valfag í 8. - 10. bekk í Grunnskóla Húnaþings vestra, samið og æft söngleik sem hlotið hefur nafnið Kysst'ana. Viðfangsefni söngleiksins er lífið í hnotskurn, ástir og örlög, gleði og sorgir.
Eftir þrotlausar æfingar hópsins mun afraksturinn líta dagsins ljós miðvikudagskvöldið 26. maí kl. 20:30 í Félagsheimilinu á Hvammstanga, en þá hefur hópurinn ákveðið að halda sérstaka styrktarsýningu fyrir Matthildi litlu Haraldsdóttur sem við erum öll farin að þekkja sem litlu hetjuna okkar. Auk þess að sjá um handritsgerð sjá nemendur sjálfir um tónlistarflutning, hljóð, ljós og sviðstjórn en þeim til aðstoðar eru kennarar námskeiðsins þau Guðmundur Helgason og Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir.
Ekki missa af frábærri skemmtun þar sem húnvetnsk æska fer á kostum. Miðaverð er aðeins kr. 1.000 og rennur allur ágóði til Matthildar litlu og fjölskyldu (enginn posi á staðnum). Húsið opnar kl. 20:00.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.