KS er annar nýrra eigenda Gleðipinna
Greint var frá því í gær að Kaupfélag Skagfirðinga og Árni Pétur Jónsson, fyrrum forstjóri Skeljungs, hafi samið um kaup á Gleðipinnum sem reka m.a. hamborgarakeðjurnar American Style og Hamborgarafabrikkuna. Fyrir átti KS Metro-staðina, þar sem McDonalds borgararnir fengust áður, en þar er nú unnið að endurbótum.
Í frétt í Innherja Vísis er haft eftir Sigurjóni Rafnssyni, aðstoðarkaupfélagsstjóra KS, að í kaupunum felist spennandi tækifæri.„Gleðipinnar hafa lagt áherslu á gæði matar og þjónustu og það munum við gera áfram. Ennfremur er einstaklega hæfur hópur stjórnenda og starfsfólks í Gleðipinnum sem við hlökkum til að starfa með.“
Jóhannes Ásbjörnsson, fyrrverandi sjónvarpsmaður og annar helmingur Simma og Jóa og því stofnandi Fabrikkunnar, er í forsvari fyrir Gleðipinna. Hann segir félagið hafa horft til þess að fá til liðs við sig öflugan samstarfsaðila og þannig hafi samtal við Kaupfélagið hafist. „Gleðipinnafjölskyldan er stór og samhent og gott að vita af henni í góðum höndum nýrra traustra eigenda. Við óskum kaupendum til hamingju með samninginn og hlökkum til áframhaldandi samstarfs við þá,“ segir Jóhannes.
Viðskiptin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Heimild og sjá nánar > Innherji
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.