Krókur á móti bragði
Getur lítil þjóð við nyrsta haf deilt afrakstri þjóðarauðlinda sinna með sanngjörnum hætti til allra landsmanna eða eiga peningaöflin og fáir útvaldir að ráða þar för og skammta úr hnefa eftir sínum geðþótta hverju sinni?
Um þetta snýst í raun sú grímulausa sérhagsmunabarátta sem á sér stað um þau stóru mál sem liggja fyrir Alþingi. Frumvarpið um veiðigjöldin var samþykkt mikið breytt og áttu þær breytingar sér að stærstum hluta eðlilegar skýringar. Hins vegar var það fyrir ólýðræðislega þvingun hluta stjórnarandstöðunnar sem málsmeðferð á stærstu kosningamálum stjórnarflokkanna var breytt. Þannig var einum stærstu kosningamálum stjórnarflokkanna, Rammaáætlun um vernd og nýtingu landsvæða og breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, frestað fram á haustið.
Glíman við að gera grundvallarbreytingar á stjórnkerfi landsins – sem snýr að gífurlega sterkri sérhagsmunagæslu á kostnað jöfnuðar og almennra mannréttinda – er ekki auðveld og stjórnarmeirihlutinn var hreinlega tekinn í „bóndabeygju“ við þinglok í sumar!
Sú umræða er sérkennileg að hvorki megi gera neinar grundvallarbreytingar á stjórnarskránni né fiskveiðistjórnarkerfinu nema í breiðri sátt, því þegar betur er að gáð þá er átt við að sáttin eigi að vera við Sjálfstæðisflokkinn.
Lýðræðislegar kosningar ganga út á að flokkar eru kosnir út á sín stefnumál, einhverjir þeirra mynda stjórnarmeirihluta, síðan er stjórnarsáttmáli saminn milli flokka þar sem einhver málamiðlun fer alltaf fram. Eðlilega fylgja breytingar í þjóðfélaginu nýrri stjórn hverju sinni en flokkar verða síðan dæmdir af verkum sínum í framhaldinu við næstu alþingiskosningar. Þannig á lýðræðið að virka en ekki með málþófskenndri gíslatöku hverju sinni þegar stór mál eru á ferðinni.
Núverandi stjórnvöld tóku við þjóðarbúinu við ömurlegar aðstæður sem eiga sér enga hliðstæðu í Íslandssögunni og þeir atburðir sem ollu hruninu eiga vonandi aldrei eftir að endurtaka sig. Hér höfðu hægri öflin leikið lausum hala í 18 ár og afleiðingarnar af stjórnarstefnu þeirra og bankahruninu hrikalegar.
Tekist hefur að snúa efnahagsþróuninni við með undraverðum hætti, velferðarkerfið verið varið við fordæmalausar aðstæður og framundan er tími uppskerunnar. Árangurinn er nefnilega ekki sjálfgefinn því allir landsmenn hafa þurft að bera byrðar sem græðgisvæðingin og hrunið kostaði okkur. En þeim byrðum hefur verið dreift eftir efnum og þeim hlíft sem minna mega sín.
Það er ekki hægt að segja um stóran hluta stjórnarandstöðunnar að hann hafi í ljósi samfélagslegrar ábyrgðar létt róðurinn við endurreisnina. Þvert á móti hefur uppleggið oftar en ekki verið að leggja stein í götu alls sem gert er og reynt að gera það tortryggilegt.
Nú þegar bæði innlendir og erlendir hagvísar sýna að árangurinn sem náðst hefur í efnahagsmálum og ekki er hægt að láta sem ekkert jákvætt hafi gerst í uppbyggingunni, þá eru góð ráð dýr fyrir úrtöluraddirnar. Lítið virðist þá vera annað í stöðunni hjá harðsvíraðri stjórnarandstöðu en að taka stóru málin í gíslingu með málþófi á Alþingi. Það var ekki sérstakt markmið núverandi ríkisstjórnar að taka að sér óvinsæl og erfið verk og koma þjóðinni út úr kreppunni til þess eins að hrunvaldarnir gætu komið aftur og sagt „Nú get ég“. Við vorum ekki kosin til að sjá eingöngu um uppvaskið og uppsópið fyrir fyrri stjórnvöld heldur til að gera þjóðfélagsbreytingar í átt til jöfnuðar, réttlætis, sjálfbærrar þróunar og heildstæðrar auðlindastefnu.
Við höfum séð peningaöflin í sinni tærustu mynd ganga fram fyrir skjöldu og verja sína þröngu sérhagsmuni á kostnað almennings og notað til þess alþekktan hræðsluáróður. Það er ljótur leikur að beita samfélögum og starfsfólki fyrir sig í grímulausum áróðri sem ekki er innistæða fyrir. Slík vinnubrögð afhjúpa sig sjálf því allir sjá að lokum að keisarinn er ekki í neinum fötum. Það á engum að líðast að halda samfélögum eða lýðræðislega kjörnu Alþingi í gíslingu málþófs eða að halda fólki í ótta um starfsöryggi sitt, greiða sér síðan myljandi arð samtímis því sem allt er sagt vera á vonarvöl í rekstrinum vegna aðgerða stjórnvalda.
Sumarið er tíminn til að safna kröftum og njóta alls þess sem lífið hefur upp á að bjóða. Stjórnvöld eiga því að losa sig úr bóndabeygju stjórnarandstöðunnar sem þingið var sett í við þinglok og ganga hnarreist fram í sumarið því þjóðin öll getur svo sannarlega verið stolt af þeim árangri sem náðst hefur. Hann þarf að verja með öllum ráðum. Ég mun áfram leggja mitt af mörkum til þess að íslenskt samfélag verði betra og réttlátara fyrir alla landsmenn en ekki bara fyrir þá sem peningana hafa og völdin. Gleðilegt sumar.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður VG í Norðvesturkjördæmi
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.