Kristrún og Laufey komnar yfir 100 leikina

Kristrún María og Laufey Harpa komnar í 100 leikja klúbbinn. MYND: JÓI SIGMARS
Kristrún María og Laufey Harpa komnar í 100 leikja klúbbinn. MYND: JÓI SIGMARS

Áður en leikur Tindastóls og Keflavíkur í Pepsi Max deild kvenna var flautaður á sl. mánudagskvöld var tveimur leikmönnum Stólastúlkna færður blómvöndur í tilefni þess að báðar höfðu nýverið spilað sinn 100. leik fyrir Tindastól. Þetta voru varnarjaxlarnir Kristrún María Magnúsdóttir og Laufey Harpa Halldórsdóttir sem náðu þessum áfanga þrátt fyrir að vera vart skriðnar yfir tvítugt.

Kristrún er fædd árið 1999, dóttir Sigrúnar Fossberg og Magga í Brekkukoti, en hún hefur nú spilað 103 leiki fyrir Tindastól en á enn eftir að skora mark. Hún spilaði sinn fyrsta leik með meistaraflokki sumarið 2015 líkt og Laufey Harpa sem hefur nú spilað 102 leiki með Stólastúlkum. Laufey, sem er fædd árið 2000 og er dóttir Steinunnar Hjálmars og Halldórs á Hlíðarenda, hefur gert sjö mörk í þessum leikjum.

Báðar eru þær aldar upp í Tindastólsgallanum og hafa spilað vel í sumar í Pepsi Max-deildinni. Vonandi munu þær klæðast Tindastóls-búningnum í mörg ár til viðbótar. Feykir óskar þeim til hamingju með áfangann.

Af öðrum leikmönnum sem voru í hópnum hjá Tindastóli í síðasta leik voru tvær stúlkur sem náðu 100 leikjum sl. sumar. Fyrirliðinn Bryndís Rut Haraldsdóttir frá Brautarholti er nú búin að spila 132 leiki og gert tíu mörk en leikjahæst er Hugrún Pálsdóttir sem hefur spilað 133 leiki og gert 21 mark í þeim. Næstar í röðinni í 100 leikja klúbbinn eru María Dögg, sem er komin með 83 leiki, og Murielle Tiernan, sem hefur spilað 69 leiki fyrir Tindastól og gert í þeim 80 mörk.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir