Kristín virkilega sátt með Húnavökuhelgina
„Hátíðin gekk virkilega vel,“ tjáði Kristín Ingibjörg Lárusdóttir Feyki að aflokinni Húnavöku en Kristín er skipuleggjandi Húnavökunnar og starfar sem menningar-, íþrótta- og tómstundafulltrúi Húnabyggðar.
„Ég gerði miklar breytingar á staðsetningum á hátíðarsvæði og breytingin hitti í mark. Allir viðburðir voru mjög vel sóttir og mikið af fólki í bænum. Ég er ekki frá því að þetta hafi verið fjölmennasta Húnavaka hingað til,“ segir Kristín sem var hin ánægðasta þegar Feykir tók púlsinn á henni.
Hvað stóð upp úr að þínu mati? „Klárlega veðrið! Það rættist heldur betur úr því,“ segir Kristín en veðrið varð töluvert betra en spár gerðu ráð fyrir. „En fyrir utan það að þá voru tónleikarnir á föstudagskvöldinu alveg frábærir. Að fara úr flutningabíl sem svið yfir í alvöru svið, það færir þetta upp á annað level og því ekki aftur snúið núna hvað það varðar.
Var í sóttkví í fyrra
Kristín hefur haldið utan um Húnavöku margoft í gegnum tíðina en í fyrra lenti hún í því að þurfa að fara í Covid-sóttkví þegar hátíðin var að hefjast. Það lá því beint við að spyrja Kristínu hvort það væri ekki betra að halda Húnavöku þegar maður er ekki í sóttkví. „Já. Þetta var auðvitað alveg hundfúlt í fyrra, að vera búin að skipuleggja hátíðina og vera skikkaður í sóttkví tveimur dögum fyrr.“ Erfiðast fannst henni að synir hennar misstu af Húnavökunni enda búnir að hlakka mikið til. „En svona voru sóttvarnarreglurnar á þeim tíma og sem betur fer var bróðir minn tilbúinn til að stökkva inn í og stýra hátíðinni, en hann skipulagði Húnavöku með mér frá 2013-2017 og því þaulvanur,“ segir Kristín og á þá við Eystein Pétur bróður sinn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.