Krækjurnar efstar í sínum riðli eftir mót helgarinnar
Krækjurnar á Sauðárkróki gerðu það gott um helgina þar sem þær unnu alla sína leiki í 5. deild Íslandsmótsins í blaki sem haldið var í Laugardalshöll. Spilaðir voru tveir leikir á laugardag og þrír á sunnudag og unnust fjórir leiki 2-0 og einn leikur 2-1. Alls eru átta lið í 5. deild kvenna og öll búin að spila tíu leiki. Krækjur eru efstar með 29 stig í 2. sæti Haukar með 24 stig og í 3. sæti er HK d með 19 stig. Fyrstu fimm leikirnir fóru fram helgina 5.-6. nóvember og síðustu fjórir leikirnir verða svo spilaðir um miðjan mars í Garðabæ og þá ráðast úrslit um hvaða tvö lið vinna sér rétt til að spila í 4. deild að ári.
Í liði Krækja léku saman í fyrsta sinn mæðgurnar Sigurlaug Valgarðsdóttir og Vala Hrönn Margeirsdóttir og voru þær ánægðar með hvor aðra. „Það var mjög skemmtilegt en það er ekkert óalgengt þar sem blakhefð er mikil að heilu fjölskyldurnar stundi blak, enda frábær íþrótt,“ segir Sigurlaug aðspurð um það að leika með dótturinni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.