Kostnaður við málefni fatlaðs fólks að sliga sveitarfélög á Norðurlandi vestra :: Uppfært
Húnaþing vestra ræður ekki við þátttöku í málefnum fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra undir óbreyttum formerkjum. Málaflokkurinn er á ábyrgð ríkisins en Sveitarfélagið Skagafjörður leiðandi sveitarfélag verkefnisins. Gríðarlegur hallarekstur er vegna málaflokksins sem rekja má til afleiðingar Covid-19 faraldursins og stytting vinnutíma hjá vaktavinnufólki.
Sveitarstjórn Húnaþings vestra fundaði um máli fyrir nokkru og lýsti áhyggjum sínum af stöðunni en sú fjárhæð sem greidd er til hins leiðandi sveitarfélags hefur hækkað um 509% frá árinu 2016 til ársins 2021, standist nýjasta fjárhagsáætlun sem lögð hefur verið fram. Í fundargerð sveitarstjórnarinnar kemur fram að á milli áranna 2020 og 2021 hækka greiðslurnar um 181%. Hlutfall þess sem greitt er til málaflokksins er 0,25% af útsvari Húnaþings vestra auk þess sem Húnaþing vestra greiðir hluta af hallarekstri málaflokksins eftir íbúafjölda.
„Ljóst má vera að Húnaþing vestra ræður ekki við þátttöku í verkefninu undir óbreyttum formerkjum, en málaflokkurinn er á ábyrgð ríkisins. Oddvita og sveitarstjóra er falið að ræða við félags- og barnamálaráðherra og gera honum grein fyrir stöðunni,“ segir í fundargerðinni.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar tók málið fyrir og tók undir áhyggjur Húnvetninga með vaxandi halla á rekstri málaflokksins. „Er sá halli tilkominn vegna aukins rekstrarkostnaðar við málaflokkinn, m.a. vegna styttingar vinnutíma hjá vaktavinnufólki, en einnig vegna þess að framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga dragast saman um tæplega 120 m.kr. á milli ársins 2020 og þeirrar áætlunar sjóðsins sem liggur fyrir varðandi árið 2021. Að óbreyttu vex kostnaður vegna viðbótarframlaga sveitarfélaga á Norðurlandi vestra sem þau þurfa að leggja til með málaflokknum umfram það útsvarshlutfall sem ætlað er að standa undir rekstri hans, því um 450% á milli áranna 2020 og 2021 og ber Sveitarfélagið Skagafjörður mestan þunga aukningarinnar, bæði hlutfallslega og eins hvað hreina fjárupphæð varðar,“ segir í fundargerð ráðsins.
Ennfremur segir að byggðarráð að Sveitarfélagið Skagafjörður hafi metnað og fagmennsku að leiðarljósi í allri umgjörð þjónustu við fatlað fólk á Norðurlandi vestra. Bundnar eru vonir við að vinna starfshópa á vegum félags- og barnamálaráðherra, muni leiða í ljós að verulega fjármuni þurfi að leggja fram af hálfu ríkisins til sveitarfélaga landsins, eigi sveitarfélögin að standa undir þeirri þjónustu við málaflokkinn sem þeim er ætlað að gera lögum samkvæmt.
„Minnt er á að málefni fatlaðs fólks og tilfærsla málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga, ásamt breytingum á laga- og reglugerðarumhverfi málaflokksins í kjölfarið, er ein stærsta áskorunin sem sveitarfélög landsins standa frammi fyrir þessi misserin. Komi ekki til aukið fjármagn frá ríkinu til málaflokksins er hætt við að vaxandi útgjöld ógni fjárhagslegri sjálfbærni margra sveitarfélaga, svo sem kom fram í máli sviðstjóra hag- og upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga á fyrrgreindri fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar tekur undir áhyggjur Húnaþings vestra og skorar á ríkisstjórn Íslands að bregðast nú þegar við vanda sveitarfélaganna og veita viðbótarframlagi til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til stuðnings reksturs málaflokksins,“ segir í bókun byggðaráðs Svf. Skagafjarðar.
Fyrir tveimur árum hótuðu nokkur sveitarfélög, sem standa að þjónustusamningnum, að draga sig út úr samstarfi um málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra en að endingu var ákveðið að halda áfram. Nú virðist uppi jafn erfitt mál fyrir sveitarfélögin sem sligast undan kostnaði.
Uppfært:
Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, félagsmálastjóri Svf. Skagafjarðar, segir sveitarfélögin á Norðurlandi vestra hafa áratuga reynslu af því að bera ábyrgð á þjónustu við fatlað fólk eða frá árinu 1999 og hafi gert það af metnaði og fagmennsku og þekki rekstur þessa málaflokks mjög vel. „Við höfum verið að merkja verulega aukinn kostnað frá árinu 2018, en þá töku gildi ný lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Ljóst er að fjárframlög ríkisins til sveitarfélaga hafa ekki tekið mið af þeim kostnaðarauka sem hafa fylgt nýjum lögum. Ásamt því taka fjárframlög ríkisins til þjónustunnar á yfirstandandi ári ekki mið af gríðarlegum kostnaðar vegna styttingu vinnutíma hjá vaktavinnufólki og blasir því við verulegur hallarekstur sem sveitarfélögin greiða.“
Hún segir starfshóp, skipaðan af félags- og barnamálaráðherra, vera að greina kostnaðarþróun í þjónustu við fatlað fólk á landsvísu ásamt því að verið sé að vinna heildarendurskoðun á lögum frá 2018. „Vinnu þessa starfshópa á að ljúka um áramótin og eru bundnar vonir við að ríkisvaldið komi með aukið framlag til sveitarfélaga svo þau geti sinnt lögbundnum verkefnum sínum. Geta má líkum að því að önnur sveitarfélög á landsvísu séu í svipaðri stöðu varðandi hallarekstur og sveitarfélögin á Norðurlandi vestra standa frammi fyrir,“ segir Gréta Sjöfn.
Þess má svo geta í lokin að Feykir skipti um mynd með fréttinni þar sem birting fyrri myndar virðist hafa valdið misskilningi margra og jafnvel óþægindum enda um viðkvæman málaflokk að ræða. Ætlun fréttaskrifara var að sýna fólk á opinberum vettvangi þar sem mikið er um að vera, sýna fólk sem þarf virkilega á þessari mikilvægu þjónustu að halda, mynd sem undirstrikar að það er verið að sinna fólki við hinar ýmsu aðstæður. Í fréttinni er ekki sagt að fatlað fólk sé byrðin, heldur málaflokkurinn eða öllu heldur stytting vinnuvikunnar og Covid-tengdar aðgerðir og ekki síst sinnuleysi ríkisins með að útvega aukið fjármagn til rekstursins.
Undirritaður biður alla viðkomandi afsökunar á þessu gáleysi.
Páll Friðriksson
ritstjóri.
Tengdar fréttir:
Endurnýjar ekki samning um málefni fatlaðs fólks
Skagafjörður ætlar ekki að endurnýja samstarfssamning um málefni fatlaðra
Skagafjörður vill öll sveitarfélög á Norðurlandi vestra að borðinu um málefni fatlaðs fólks
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.