Kór Akraneskirkju í Menningarhúsinu Miðgarði.

 

Kór Akraneskirkju heldur tónleika í Menningarhúsinu Miðgarði, fimmtudaginn 7. maí  kl. 20:30. Á efnisskránni, sem innheldur veraldlega sem andlega kórtónlist, má finna sálma eftir Sigurbjörn Einarsson og Hallgrím Pétursson í útsetningum Gunnars Gunnarssonar.

 

 

Einnig þekkt alþýðulög í útsetningum Magnúsar Ingimarssonar og flutt verður nýlegt lag sem tengist sögu Reynisstaðabræðra eftir Akurnesinginn Baldur Ketilsson við ljóð Jóns Gunnars Axelssonar, félaga í kórnum. Dægurlög, sem tengjast Akranesi, verða flutt í útsetningum sem gerðar hafa verið fyrir kórinn og mun Kata þar m.a. rokka og Angelía svífa um. Með kórnum leika Viðar Guðmundsson á píanó og Kristín Sigurjónsdóttir á fiðlu. Sigursteinn Hákonarson (Steini í Dúmbó) syngur einsöng.

Stjórnandi Kór Akraneskirkju er Sveinn Arnar Sæmundsson frá Syðstu-Grund.

 

Kór Akraneskirkju telur 50 félaga og hefur kórinn hlotið afbragðsdóma fyrir söng sinn á undanförnum árum. Kórinn hefur miklum skyldum að gegna við Akraneskirkju en einnig hefur kórinn það á stefnuskrá sinni að syngja mjög fjölbreytta kórtónlist. Á efnisskránni, sem sungin verður í Miðgarði, ættu allir að geta fengið að heyra eitthvað við sitt hæfi.

 

Aðgangseyrir er kr. 1500 en hægt er að tryggja sér miða á kr. 1000 með því að senda póst á netfangið arnar@akraneskirkja.is

 

(Því miður ekki hægt að taka við greiðslukortum)

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir