Komst á hljóðbókalestina og er nú óstöðvandi í að hlusta
Á bænum Skriðulandi í Langadal býr bóndinn Magnea Jóna Pálmadóttir ásamt eiginmanni sínum, Halldóri BjartmariHalldórssyni en saman eiga þau fimm syni; Einar Pálma 16 ára, Björn Óskar 12, Ragnar Ara 11, Angantý Svan 9 og Helga Mar 5 ára. Magnea er 1982 árgangur og fædd og uppalin í Skagafirðinum, dóttir Pálma heitins Ragnarssonar og Ásu Jakobs í Garðakoti í Hólahreppi hinum forna en Magnea færði sig um set, 17–18 ára gömul, yfir í Húnavatnssýsluna.
„Við búum með sauðfé, nautgripi, svín, hund og tvö ketti,“ segir Magga og bætir við: „Framundan í búskapnum er rúningur og svo fósturtalning sem er ekkert lítið spennandi. Svo brestur sauðburðurinn á í enda apríl. Hér er náttúrulega dásamlegt að búa og er ég búin að búa hérna megin fjallsins í 22 ár. Já, tíminn flýgur en auðvitað er maður Skagfirðingur í húð og hár.“
„Það eru engar bækur á náttborðinu mínu en ég var að hlusta á Þögla sjúklinginn og ætla að fara að hlusta á Arnaldur Indriðason deyr,“ svarar Magnea þegar hún er spurð um hvað bækur hún sé með á náttborðinu.
Hver er uppáhaldsbókin af þeim sem þú hefur lesið gegnum tíðina? „Það er engin ein sem stendur upp úr. Allar bækurnar eftir Guðrúnu frá Lundi og svo Ísfólkið. Hús tveggja fjölskyldna og bókin Villt svo eitthvað sé nefnt.“
Hvers konar bækur lestu helst? „Ég hef voða lítinn tíma til að lesa fyrir utan það að ég er lesblind og kemst því seint og illa í gegnum bækur. Svo þegar ég komst á hljóðbókalestina er ég óstöðvandi. Ég hlusta á allt. Þegar maður getur hlustað á bækur gefur það manni svo mikið frelsi til að hlusta á bækur sem maður hefði alls ekki lesið annars.“
Hvaða bækur voru í uppáhaldi hjá þér þegar þú varst barn? „Ég man að ég las allar Nancy bækurnar og allar bækurnar eftir Ármann Kr. Einarsson. Svo finnst mér bækur um gamla tímann og vesturfara frábærar og man að ég heillaðist af bókunum Híbýli vindanna og Lífsins tré.“
Er einhver ein bók sem hefur sérstakt gildi fyrir þig? „Ég erfði bækurnar eftir Jean M. Auel eftir ömmu mína, Oddnýju í Garðakoti. Þær heita Þjóð bjarnarins mikla, Dalur hestanna, Mammútaþjóðin, Seiður sléttunnar og Hella þjóðin. Ég dróst mikið að þessum bókum þegar ég var krakki. fannst þær svo fallegar og heita svo flottum nöfnum. Var ég svo heppinn að fá þær eftir ömmu og afa í Garðakoti. En þar sem ég er lesblind bjóst ég ekki við að lesa þær nokkurntímann. En var ég svo heppinn að þær eru til á hljóðbók og björguðu þær mér eitt sumarið þegar ég var að rifja og keyra rúllum.“
Hvaða rithöfundar eða skáld eru í uppáhaldi? „Ég las alltaf bækurnar hennar Yrsu Sigurðardóttur og bækurnar hans Arnalds Indriðasonar voru þær bækur sem við fengum í jólagjöf og ég náði að lesa. Svo þessir höfundar eru í miklu uppáhaldi. En eftir að ég fór að hlusta þá eru það auðvitað þau en líka Jojo Moyes, Jenny Colgan, Jill Marsell og Sarah Morgan.“
Áttu þér uppáhalds bókabúð? „Nei.“
Hversu margar bækur heldurðu að þú eignist árlega? „Svona eina. En maðurinn minn eignast fleiri.“
Hvaða bækur lestu fyrir börnin þín? „Hér eru bækurnar eftir David Williams í miklu uppáhaldi“
Hefur þú heimsótt staði sérstaklega vegna þess að þeir tengjast bókum sem þú hefur lesið? „Já, við hjónin fórum upp að Paradísarhelli eftir að hafa lesið bókina Anna frá Stóruborg. Svo höfum við farið upp að Beinhól eftir lestur bókarinnar Reynistaðarbræður.“
Hver er eftirminnilegasta bókin sem þú hefur fengið að gjöf? „Austan við sól eftir Barbara Bickmore. Elskaði þær.“
Hvað er best með bóklestri? „Þar sem ég les ekki heldur hlusta mest, eru það prjónarnir. Svo verða heimilisverkin miklu skemmtilegri og líka öll útivinnan. Það er bara allt betra með bókahlustun.“
Ef þú ættir að gefa einhverjum sem þér þykir vænt um bók, hvaða bók yrði þá fyrir valinu? „Engin ein bók – það fer bara algjörlega eftir því hver er að fara að fá bókina.“
- - - - -
Bók-hald Magneu Jónu birtist fyrst í 9. tölublaði Feyki 2022
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.