Kindur gera usla á Króknum :: Háma í sig sumarblómin og skemma eigur
Undanfarin haust hafa bæjarbúar Sauðárkróks getað fylgst með kindum sem lagt hafa leið sína í bæinn og margir hafa haft gaman af því að taka af þeim myndir á hinum ólíklegustu stöðum. En það eru ekki allir kátir.
Snemma morguns er þessi ær að
spóka sig með afkvæmunum í
útbænum á króknum. Mynd: PF.
Þessar skepnur eru miklir sælkerar og eftir að hafa lifað á fjallagróðri í sumar finnst þeim alveg tilvalið að gæða sér á græðlingum, runnum og hinum gómsætu sumarblómum sem víða er að finna í görðum Króksara. Eigendur fasteigna á Gránumóum hafa átt í miklu basli með ágang sauðfjár sem skemmt hafa eigur þeirra og eyðilagt fjölda af nýgróðursettum trjám svo ekki sé talað um óþrifnaðinn sem skepnurnar skilja eftir sig á bílaplani og víðar.
Þannig segir Pétur Ingi Björnsson hafa haft samband við búfjáreftirlitsmann Skagafjarðar sem fjarlægði 30 kinda hóp af svæðinu fyrir skömmu. Ekki leið langur tími þegar annar hópur var mættur og ekki frýnilegri. Á laugardagsmorguninn gekk undirritaður fram á fimm kindur í mikilli átveislu í blómabeði á Kirkjutorginu. Síðar um daginn bárust fregnir af því að öll sumarblóm í nálægum garði hefðu horfið um nóttina. „Helvítis rollur!“ má húsfrúna segja í myndbandi sem hún póstaði á Facebook.
"Við skulum koma okkur í burtu áður en fólk vaknar."
Mynd: PF.
„Við fáum alltaf skammir,“ segir Þorbjörg Ágústsdóttir, formaður Fjáreigandafélags Sauðárkróks. Hún segir Nafarbændur oft liggja undir grun þó að kindurnar séu ekki endilega með lögheimili á Nöfum því margar þeirra rölta úr Gönguskörðunum og inn í bæinn norðanmegin. Þær geti verið hvaðan sem er.
Vill ristarhlið við Reykjastrandarafleggjara
„Öllum hjá Skagafirði er ljós þessi staða, en bæjarlandið er opið, á meðan það er þannig, verður ástandið óbreytt. Ég hef smalað þetta nokkrum sinnum í sumar. Nafabændur hafa eitthvað smalað, en nýtt fé kemur í bæinn sama dag. Ég hef lagt til að loka bæjarlandinu með ristarhliði á Þverárfjallsveg við Reykjastrandarafleggjara. Það mál er statt hjá sveitarstjóra og Vegagerð,“ segir Kári Gunnarsson, umhverfis- og landbúnaðarfulltrúi Skagafjarðar. Hann segir Skagafjörð hafa fullt vald til að banna lausagöngu, hér á Sauðárkróki og hvar sem er í sveitarfélaginu. „Slík ákvörðun hefur ekki verið tekin og ekki áhugi á því, eftir því sem ég veit best,“ segir Kári.
En hver er ábyrgur?
Á röltinu út Freyjugötu.
Mynd: Sigríður Elfa Eyjólfsdóttir.
„Ef lausaganga er leyfð í sveitarfélaginu og búfé veldur þeim skemmdum eins og þú lýsir, þá væri almennt ekki um sök hjá eiganda að ræða, en ef lausaganga er bönnuð (sem er algengara í þéttbýli) þá væri líklegra að beina kröfu í ábyrgðartryggingu bóndans,“ segir Erla Tryggvadóttir, samskiptastjóri VÍS. „Varðandi hvort við höfum fengið mörg slík tjón, þá er það ekki svo. Það er helst þegar kindur eða hestar hlaupa upp á veg og lenda á bíl ─ og þá mat hvort sök sé hjá eiganda búfjár eða ökumanni, þ.e. hvort bætum bílinn úr ábyrgðartryggingu bóndans eða búféð úr ábyrgðartryggingu bílsins.“ Hún segir þetta þyrfti að skoða í samhengi við mat og afgreiðslu á tjóni, sem kæmi inn til félagsins, varðandi kröfu í ábyrgðartryggingu, og við mat á sök eiganda dýranna eða þess sem hafði þau í sinni umsjá.
Eitthvað heillar í hlíðinni fyrir ofan íþróttavöllinn.
Mynd: Sveinbjörn Óli Svavarsson.
Kristín Snorradóttir, umboðsmaður Sjóvár á Sauðárkróki, segist ekki kannast við önnur tjón en þau sem verða á þjóðveginum. Hver ber ábyrgð fer eftir því hvort lausaganga búfjár sé leyfð eða ekki og líkir því við að ef einstaklingur keyrir á hund á Sauðárkróki, og hann skemmir bílinn, þá er eigandi hundsins ábyrgur. En ef viðkomandi keyrir á hundinn í sveitinni þá er ökumaðurinn ábyrgur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.