„Keith Jarret og kaffi á sunnudagsmorgni er ofsa góð blanda“ / HARPA ÞORVALDS
Tónlistarkonan Harpa Þorvaldsdóttir er uppalin á Hvammstanga en býr nú í Reykjavík. Harpa er dóttir Þovaldar Böðvarssonar, fyrrum rekstrarstjóra Vegagerðarinnar á Norðurlandi vestra, og Hólmfríðar Skúladóttur. Harpa hefur sungið síðan hún man eftir sér en hljóðfærið hennar er píanó. „Hef ekki geta skilið það við mig frá því ég byrjaði að læra 6 ára gömul,“ segir Harpa, en hún kemur fram á tónleikum á Hvammstanga þann 4. júní til styrktar Menningarfélagi Húnaþings vestra.
Helstu tónlistarafrek: Hm, afrek… Reykjavík var menningarborg Evrópu árið 2000. Raddir Evrópu var risa verkefni sem ég var valin í ásamt níu öðrum einstaklingum frá Íslandi. Við ferðuðumst um alla Evrópu ásamt tíu einstaklingum frá hverri menningarborg og mynduðum saman 100 manna ungmennakór. Þetta var einstök lífsreynsla sem líður mér seint úr minni. En talandi um afrek þá er mitt stærsta og sætasta tónlistarafrek þegar ég kláraði mastersgráðuna mína við Mozarteum tónlistarháskólann í Salzburg í Austurríki. Þá var ég búin að upplifa það að lífið er ekki sjálfsagður hlutur og litla dóttir mín, hún Matthildur, dreif mig áfram. Við kláruðum þetta verkefni saman með glæsibrag og ég er ótrúlega stolt af því!
Hvaða lag varstu að hlusta á? Var að hlusta á lagið Still með hljómsveitinni Daughter…
Uppáhalds tónlistartímabil? Of erfið spurning.
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Áhugaverð tónlist…
Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Ég er örverpið í fjölskyldunni og á tvö eldri systkini. Ég man vel eftir Mike Oldfield og Megasi sem hljómuðu mikið þegar Skúli bróðir minn var heima. Annars hlustuðu foreldrar mínir ekki mikið á tónlist. Mágur minn, Baldur Eiríksson, var duglegur að kynna mig fyrir tónlist og þá sérstaklega söngkonum sem voru í uppáhaldi hjá honum. Ég er nokkuð viss um að það hafi haft mikil áhrif á mig á þeim tíma.
Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Gæti trúað því að það hafi verið Frostlög 1988… magnað að rifja þetta upp.
Hvaða græjur varstu þá með? Mig minnir að ég hafi verið komin með gömlu græjurnar inn í herbergið mitt og þá erum við að tala um risastórar græjur með plötuspilara og kasettutæki sem þurfti sérútbúna hillu í hansahillu stæðunni. Þetta var sko ekkert slor J
Hver var fyrsta platan sem þú óskaðir þér í jólagjöf? Ég gleymi ekki gleðinni sem fylgdi því að fá kasettuna með HLH flokknum, Heima er best. Hún var ósvikin (gleðin) og fékk sú kasetta að hljóma hressilega í gömlu græjunum hjá mömmu og pabba.
Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Skál fyrir þér…
Uppáhalds Júróvisjónlagið? Klárlega Nína!
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Ég myndi slökkva á græjunum og setjast við píanóið og telja í…
Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Keith Jarrett og kaffi á sunnudagsmorgni er ofsa góð blanda.
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Vó, þetta finnst mér ofsalega erfið spurning… Mér finnst gott að breyta um umhverfi þannig að ég væri til í að fara erlendis í september, kannski New York, hef aldrei komið þangað… hm, hlusta á Tom Waits á lítilli búllu með góðum vinum. Já, þar hefurðu það.
Hvaða músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst kominn með bílprófið? Jeff Buckley var tíður gestur í mínum bíl.
Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Þeir eru margirog ólíkir en þau sem koma upp í hugann eru Tom Waits og Sarah Mclachlan, ofsa ólík en samt ekki.
Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út eða sú sem skiptir þig mestu máli? Tom Waits – Closing time! Sú hitti mig beint í hjartastað.
Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? Ég spila yfirleitt plöturnar í gegn og bý ekki til playlista… Akkúrat núna hlusta ég mikið á hljómsveitina Daughter og Bon Iver ... en kannski er þetta einmitt tíminn til að búa til mergjaðan sumarplaylista?
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.