Keflvíkingar eldri en tvævetur í körfunni

Þessir stuðningsmenn Tindastóls og raunar tveir til viðbótar bræddu hjörtu Keflvíkinga í gærkvöldi – eða í það minnsta formannsins. „Tveir krakkar og tveir fullorðnir að mér skilst tóku sig til og pössuðu að ekki eitt poppkorn, ekki eitt nammibréf eða tóm plastflaska var skilið eftir á gólfinu, allt rusl var sett í ruslatunnurnar... þvílíkir meistarar,“ skrifaði hann m.a. og var helsáttur við stuðningsmenn beggja liða og reyndar úrslit leiksins. En hann var ofsakátur með þessa fjóra og ætlar að bjóða þeim á næsta leik í Keflavík. Vel gert!  MYND AF NETINU
Þessir stuðningsmenn Tindastóls og raunar tveir til viðbótar bræddu hjörtu Keflvíkinga í gærkvöldi – eða í það minnsta formannsins. „Tveir krakkar og tveir fullorðnir að mér skilst tóku sig til og pössuðu að ekki eitt poppkorn, ekki eitt nammibréf eða tóm plastflaska var skilið eftir á gólfinu, allt rusl var sett í ruslatunnurnar... þvílíkir meistarar,“ skrifaði hann m.a. og var helsáttur við stuðningsmenn beggja liða og reyndar úrslit leiksins. En hann var ofsakátur með þessa fjóra og ætlar að bjóða þeim á næsta leik í Keflavík. Vel gert! MYND AF NETINU

Eftir frábæran sigurleik Tindastóls í fyrsta leik úrslitakeppninnar gegn Keflvíkingum voru einhverjir stuðningsmenn Stólanna farnir að láta sig dreyma um kúst og fæjó. Það kom hins vegar í ljós í gærkvöldi að Keflvíkingar eru töluvert eldri en tvævetur þegar kemur að körfuboltaleikjum og þeir Suðurnesja menn náðu vopnum sínum á meðan Stólunum gekk afleitlega að koma boltanum í körfu Keflvíkinga. Leikurinn var engu að síður lengstum jafn og spennandi og Stólarnir í séns fram á síðustu mínútur. Lokatölur 92-75, allt jafnt í einvíginu og liðin mætast í þriðja sinn í Síkinu nk. mánudag.

Það var góð mæting í Blue-höllina í Keflavík (Sláturhúsið) og stuðningsmenn beggja liða í góðum gír. Leikurinn fór vel af stað en eftir fimm mínútur var staðan 9-11 fyrir Stólana en skömmu fyrir lok fyrsta leikhluta gerðist umdeilt atvik þar sem Halldór Garðar sló Helga Rafn augljóslega viljandi í punginn. Dómaratríóinu þótti þetta aðeins verðskulda óíþróttamannslega villu sem verður að teljast sérstakt. Helgi setti vítin niður að fádæma öryggi og Stólarnir leiddu, 19-21, þegar annar leikhluti fór í gang. Þristar frá Badmus og Arnari komu Stólunum í 20-27 en þá kom slæmur kafli gestanna því Keflvíkingar gerðu 18 stig (!) í röð og snéru leiknum á punktinum. Þessi kafli reyndist dýrkeyptur því þetta bil náðu Stólarnir aldrei alveg að brúa þó munurinn hafi reyndar farið niður í eitt stig þegar best lét. Staðan þarna 38-27 en körfur frá Badmus og Bess á lokamínútum fyrri hálfleiks löguðu stöðuna örlítið. Staðan í hálfleik 41-34.

Bess og Siggi Þorsteins gerðu fyrstu körfur síðari hálfleiks, staðan 41-39, og Arnar minnkaði muninn í eitt stig, 43-42, með þristi. Þá kom enn önnur sveifla þar sem heimamenn gerðu níu stig í röð og Stólarnir þurftu að skrúfa fyrir lekann og reyna að saxa á forskotið sem var orðið tíu stig. Það gekk ekki vel því Brodnik, Arnór og Tarvidas komu Keflvíkingum 16 stigum yfir, 62-46, en Stólarnir gáfust ekki upp. Vrkic og Badmus löguðu stöðuna og sex stigum munaði þegar þriðja leikhluta lauk, staðan 66-60. Milka og Brodnik gerðu sex fyrstu stig fjórða leikhluta og komu sínum mönnum tólf stigum yfir. Stólarnir tróðu sér inn í leikinn að nýju; Pétur setti niður þrist og staðan 74-67, Tarvydas svaraði með íleggju en næstu tvær körfur komu frá Sigga okkar, 76-61, aðeins fimm stiga munur og fjórar mínútur eftir af leiknum. Þá yfirgáfu lukkudísirnar liðið því Arnar meiddist á ökkla og varð að hoppa af velli og Keflvíkingar léku í kjölfarið við hvurn sinn fingur.

Það kann auðvitað ekki góðri lukku að stýra þegar helstu skotmenn liðsins hitta á erfiðan dag og vörn andstæðinganna gerir sitt besta til að loka á þá. Arnar og Bess eru þessir kappar í liði Tindastóls og í gær tóku þeir báðir 13 skot í opnum leik, 26 skot samtals, og hittu fimm sinnum. Svona getur auðvitað gerst en nú er bara að vona að við náum vopnum okkkar að nýju og leikmenn Tindastóls finni fjölina sína á mánudagskvöldið.

Taiwo Badmus var stigahæstur í liði Tindastóls, gerði 22 stig og nýtti helming skota sinna í leiknum. Hann tók einnig sjö fráköst líkt og Bess sem gerði 12 stig, sjö þeirra af vítalínunni. Vrkic gerði 13 stig en aðrir leikmenn Tindastóls voru undir tíu stigunum. Stólarnir hittu aðeins 12 af 35 skotum innan teigs á meðan Keflvíkingar voru 25/48. Bæði lið voru með 31% nýtingu í þriggja stiga skotum en Stólarnir skutu 13 fleiri skotum en Keflavík. Þá hirti Keflavík 60 fráköst en lið Tindastóls aðeins 35 en á móti töpuðu Keflvíkingar 19 boltum en Stólarnir 14.

Tölfræði af vef KKÍ >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir